Aldrei séð annan eins sandburð

Gríðarmikill foksandur barst í óveðrunum í vetur úr fjörunni milli Óseyrarbrúar og Þorlákshafnar. Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss, segir að þeir hafi aldrei séð annan eins sandburð frá fjörunni og nú. Hann óttast að sandfokið geti ógnað framtíð golfvallarins og jafnvel byggðarinnar í Þorlákshöfn.

Kamburinn, sem melgresið byggði upp á löngum tíma og veitti vörn gegn sandinum, hefur víða rofnað og er orðinn líkastur skörðóttum tanngarði. Sandurinn fýkur nú óheftur um skörðin og sest í grónar dældir.

Í vetur sem leið mynduðust sandskaflar á veginum að Óseyrarbrú. Þegar sandurinn blandaðist snjó eða bleytu myndaðist sleip sandeðja. Þess voru dæmi að bílstjórar misstu stjórn á bílum sínum í eðjunni og bílarnir ultu.

Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, segir að þeim hjá Landgræðslunni þyki þetta vera alvarleg þróun. Hann segir að kostnaðarsamt sé að slétta úr hólunum sem standa nú upp úr kambinum og sá í svæðið á ný.

Boða á fulltrúa sveitarfélagsins, Landgræðslunnar, Vegagerðarinnar og jafnvel fleiri á samráðsfund þar sem lagt verður á ráðin um hvernig eigi að taka á þessu vandamáli.

Fjallað er um þetta mál í Morgunblaðinu á morgun.

Sigurður óttast að sandfokið geti ógnað framtíð golfvallarins og jafnvel …
Sigurður óttast að sandfokið geti ógnað framtíð golfvallarins og jafnvel byggðarinnar í Þorlákshöfn. Rax / Ragnar Axelsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert