Árið 2008 var mikið lánað til „Péturs og Páls út í bæ“ til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi með veði í hlutabréfum bankans. Eftirlit áhættustýringar vegna þessara viðskipta virkaði ekki og sviðið skipti sér ekkert af þessum lánveitingum nema að litlum hluta.
Þetta kom fram í samantekt frá yfirheyrslu sérstaks saksóknara yfir Lilju Steinþórsdóttur, fv. yfirmanns í innri endurskoðun Kaupþings, sem sýnd var þegar Lilja kom og bar vitni í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í dag.
Sagði Lilja að mörg þessara félaga sem hafi verið lánað til hafi verið ný og að veðin hafi verið bréfin sjálf. Í slíkum tilfellum kvað reglubókin á um að félögin skyldu sett á undanþágulista. Með því hafi áhættustýring ekki skipt sér mikið af þeim. Haft var eftir Lilju að með þessu hafi áhættustýring verið læst í gömlum vinnuaðferðum og að skort hafi lánshæfismöt vegna útlánanna. Í svörum til verjanda sagði Lilja að kerfið hafi ekki ráðið við öll útlán.