Nýr veltibíll var tekinn í notkun í dag en við sama tilefni var gamla bílnum steypt í sjóinn við Sundahöfn til að sýna fram á mikilvægi bílbelta. Það heppnaðist vel en þegar draga átti bílinn á land vandaðist málið eins og sést á myndskeiðinu þar sem línan sem átti að hífa bílinn upp slitnaði.
Brautin bindindisfélag ökumanna notar veltibílinn til að sýna fram á mikilvægi þess að nota öryggisbelti en að sögn Einars Guðmundssonar, formanns Brautarinnar, hefur það komist í umræðuna að fólk sé betur sett án bílbelta lendi bílar í djúpu vatni. Því var brugðið á það ráð að setja gínur inn í bílinn ásamt myndavélum og honum steypt í sjóinn. Myndefnið verður svo notað í fræðsluefni.