Munnlegt leyfi hefur fengist fyrir framlagi Íslands á Feneyjartvíæringnum en ekki hefur borist formlegt svar frá borgaryfirvöldum í Feneyjum, segir Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor við Listaháskólann, í samtali við mbl.is en hann er staddur í Feneyjum. Það þýðir að framlag Íslands, Moskan - Fyrsta moskan í sögulega hluta Feneyja, í fornri, afhelgaðri kirkju, verður opnað í dag.
Feneyjatvíæringurinn, hin viðamikla myndlistarhátíð í Feneyjum, verður opnaður í dag í 56. skipti. Í gær var þó enn óvíst hvort tilskilin leyfi fengjust fyrir opnun íslenska skálans þar sem Cristoph Büchel, svissneski myndlistarmaðurinn sem er fulltrúi Íslands að þessu sinni, hefur sett upp verkið Moskan - Fyrsta moskan í sögulega hluta Feneyja, í fornri, afhelgaðri kirkju.
Guðmundur Oddur segir að Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, sem fer með málefni íslenska skálans, hafi fengið munnlegt svar seint í gærkvöldi en ekki hafi enn borist formlegt leyfi. „Þetta er það eina sem við vitum klukkutíma fyrir opnun,““ segir Guðmundur Oddur og bætir því við að mikil spenna sé í loftinu en margir hafi haldið að sér höndum varðandi verkið hingað til. Hann segir að það séu allir sem hafa séð verkið svo undrandi á fegurð verksins.
Hver er ógnin?
Í ítarlegri umfjöllun The New York Times um verkið í gær var greint frá því að Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og listamaðurinn hefðu í liðnum mánuði fengið bréf frá borgaryfirvöldum í Feneyjum þar sem fram kemur að lögreglan teldi ógn stafa af moskunni. Í bréfinu er haft eftir fulltrúum lögreglunnar að erfitt sé að fylgjast með staðnum, þar sem moskan er í aflagðri kirkju við eitt af síkjum borgarinnar og við göngubrú. Sagt er að slíkt eftirlit sé nauðsynlegt „í ljósi alþjóðlegra hræringa í dag og hættu á mögulegri árás einhverra trúaröfgamanna“.
Guðmundur Oddur segist velta því fyrir sér hver þessi ógn sé og hvort hún sé ekki einfaldlega hugmyndafræðileg.
„Því það er ekkert að sýningunni. Það er ekkert að staðnum. Það er torg fyrir framan og þetta er fullkomlega áhyggjulaust. Hverjir ættu svo sem að ráðast á verkið. Ég skil það ekki heldur. Eru það kaþólikkar eða gyðingar,“ segir Guðmundur Oddur í samtali við mbl.is í morgun.
Büchel er kunnur fyrir viðamiklar innsetningar, þar sem umfjöllunarefnið er iðulega af pólitískum og samfélagslegum toga. Að þessu sinni hefur hann sett upp raunverulega mosku í íslenska skálanum, í samvinnu við samfélög múslima í Feneyjum og á Íslandi, með upplýsingamiðstöð þar sem fyrirhugað er að vera með allrahanda fræðslu og kennslu, meðal annars um íslam, tungumál og ólíka siði, þá sjö mánuði sem tvíæringurinn stendur.
Fram kemur í fréttinni að Büchel og sýningarstjórinn Nína Magnúsdóttir hafi ráðfært sig við lögmenn og í kjölfarið haldið áfram undirbúningi við íslenska skálann, moskuna sem á að opna fyrir hádegið í dag með tilheyrandi ræðuhöldum, þá hefðbundnum föstudagsbænum múslima og loks sameiginlegri máltíð gesta eftir bænir.
Tjáir sig aldrei um verk sín í fjölmiðlum
Büchel var í allan gærdag upptekinn við að setja verkið upp ásamt aðstoðarfólki sínu en hann tjáir sig aldrei í fjölmiðlum um verk sín, segir í umfjöllun Einars Fals Ingólfssonar, um Feneyjartvíæringinn í Morgunblaðinu í dag.
En mátti ekki búast við því þegar ráðist var í þetta verkefni að slíkur núningur kynni að eiga sér stað?, spurði Einar Falur Björgu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, í Morgunblaðinu í dag:
„Að sjálfsögðu lá fyrir í upphafi að þetta myndi vekja umræðu,“ sagði Björg. „Verk Büchels vekja fólk og hreyfa við samfélaginu öllu. Hann hefur ráðist í viðamikil verkefni á undanförnum árum og fær heilu samfélögin með sér inn í þau. Fáir í dag þora að eiga við myndlist af þessari stærðargráðu.“