„Hugmyndin er sú að gera upp vinnutímann á mánaðargrundvelli,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um tillögu samtakanna í kjaradeilu Starfsgreinasambandsins, en hún felur m.a. í sér að dagvinnutíminn yrði lengdur og spannaði tímabilið frá kl. 6-19.
Samkvæmt tillögunni myndi yfirvinnuálag lækka úr 80% í 50% í áföngum, en yfirvinnan yrði reiknuð út á mánaðargrundvelli, á alla tíma umfram 160. Á móti kæmi sveigjanleiki í vinnutíma og 8% hækkun dagvinnutaxta í þremur áföngum.
Hannes segir að þetta fyrirkomulag myndi gera það að verkum að fólk gæti ráðið vinnutíma sínum í auknum mæli, t.d. unnið 10 tíma á dag eina vikuna og tekið sér frí á móti í næstu viku, í stað þess að fá greidda yfirvinnu.
„Þannig eru yfirvinnugreiðslurnar minni en meiri sveigjanleiki í vinnutíma,“ útskýrir hann.
Hannes segir þetta þekkt fyrirkomulag víða erlendis. Hann segir meintan langan vinnutíma Íslendinga m.a. mega rekja til stífra ákvæða um greiðslu yfirvinnu.
Í Morgunblaðinu í morgun kom fram að SGS hefði reiknað tilboð SA til 28 þúsund króna hækkunnar lægstu launa, en Hannes segir töluna blekkjandi. Hún sé reiknuð útfrá 201.000 krónum og gildi því aðeins um fáa launamenn.