Bandalag háskólamanna (BHM) segir að ummæli sem forstjóri Landspítalans lét falla í pistli í gær hafi komið verulega á óvart, en hann sagði m.a. að yfirstandandi verkfall geislafræðinga hefði valdið verulegum áhrifum á meðferð sjúklinga. Hann óttaðist ekki væri hægt að tryggja öryggi sjúklinga.
„Það er mat sérfræðinga okkar að raunveruleg hætta sé á að einhver hafi skaðast vegna afleiðinga verkfallsins, muni gera það eða jafnvel láta lífið,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, meðal annars í föstudagspistli sem birtur var á heimasíðu sjúkrahússins.
BHM hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla heilbrigðisráðherra og forstjóra Landsspítalans.
Þar segir, að á fundi fulltrúa BHM með yfirstjórn LSH í gær hafi forstjórinn farið yfir þá alvarlegu stöðu sem ríki á spítalanum í fimmtu viku verkfalls.
„Fulltrúar BHM fóru af þeim fundi með það að leysa úr þeim málum sem borin voru upp á fundinum. Þau varða aðallega undanþágubeiðnir fyrir mánudaginn 11. maí. Vikulegur föstudagspistill forstjóra LSH kom því verulega á óvart,“ segir BHM.
„BHM og aðildarfélög þess hafa frá upphafi verkfalls lýst því yfir að tryggja þurfi öryggi sjúklinga og hefur sú afstaða ekki breyst. Undanþágur munu afgreiddar héðan í frá sem hingað til og bráðatilvikum sinnt. Að lokum skal á það bent að til að afstýra neyðarástandi þarf samninganefnd ríkisins að ganga til samninga við aðildarfélög BHM og treystum við því ef marka má orð heilbrigðisráðherra um alvarleika málsins að hann beiti sér fyrir því af fullum þunga.“