Matarmenningin tengir fólkið

Margrét Lilja Arnarsdóttir, Anna Sigurrós Steinarsdóttir, Agla Eir Vilhjálmsdóttir, Mist …
Margrét Lilja Arnarsdóttir, Anna Sigurrós Steinarsdóttir, Agla Eir Vilhjálmsdóttir, Mist Grétarsdóttir og Björn Þór Þorsteinsson. mbl.is/Styrmir Kári

Fimm nemendur á fyrsta ári í Háskólanum í Reykjavík vinna saman að viðskiptahugmynd sem gengur út á það að tengja saman fólk sem vill kynnast nýrri matarmenningu og þá sem hafa gaman af því að elda og kynnast nýju fólki. Nemendurnir eru að hanna heimasíðu í anda airbnb.com og verður hún væntanlega opnuð um helgina, en í stað þess að fólk leigi frá sér húsnæði eða leiti að húsnæði til leigu snúast viðskiptin um að bjóða upp á mat í heimahúsi gegn greiðslu.

Agla Eir Vilhjálmsdóttir laganemi, Anna Sigurrós Steinarsdóttir verkfræðinemi, Björn Þór Þorsteinsson viðskiptafræðinemi, Margrét Lilja Arnarsdóttir verkfræðinemi og Mist Grétarsdóttir sálfræðinemi vinna að fyrrnefndu verkefni, fyrst og fremst með erlenda ferðamenn í huga.

foodfriendsiceland.com

Agla Eir segir að hugmyndin sé að áhugakokkar búi sér til svæði á heimasíðu fyrirtækisins (foodfriendsiceland.com) og á appi, sem til stendur að útbúa. Þar kynni þeir sig, hvað þeir hafi upp á að bjóða, hvenær og hvað það kosti. Viðskiptavinurinn geti skoðað mismunandi prófíla og keypt sér máltíð. Hann geti líka gefið matreiðslumanninum einkunn fyrir eldamennskuna og kokkurinn geti á sama hátt gefið viðskiptavininum einkunn fyrir framkomuna. „Við hugsum þetta fyrir túrista sem vilja kynnast heimafólki og fá heimagerðan mat og fyrir fólk sem hefur áhuga á að taka á móti ferðamönnum inn á sitt heimili,“ segir hún. Til nánari útskýringar segir Agla Eir að fyrirtækið ákveði lágmarks- og hámarksverð og áhugakokkarnir ákveði hvað sé í boði hverju sinni og verðleggi þjónustuna á milli fyrirfram ákveðinna marka.

Markmið áfangans er að hóparnir komist eins langt og þeir geti til þess að verkefnin verði að raunveruleika. „Þegar við byrjuðum að vinna að verkefninu fannst okkur það svo áhugavert að okkur langar að halda því áfram og hrinda því í framkvæmd,“ segir Agla Eir. Hún bætir við að hugsanlega verði þau fimm og fjölskyldur þeirra fyrstu áhugakokkarnir til þess að koma fyrirtækinu af stað. Þau kynntu verkefnið ferðamönnum í miðbænum í vikunni og fengu góðar undirtektir. „Það var skemmtilegt að heyra hvað margir höfðu áhuga á því að koma inn á heimili hjá Íslendingum og borða með þeim, en að sjálfsögðu verður þetta líka opið fyrir íslenska matargesti.“

Um 320 nemendur

Um 320 nemendur úr hinum ýmsu deildum eru í áfanganum Nýsköpun og stofnun fyrirtækja við Háskólann í Reykjavík. Þeir eru í 63 hópum og ákveða sjálfir verkefnin og úrvinnsluna. Markmiðið er að þróa viðskiptahugmynd á þremur vikum og fékk hver hópur 30 sekúndur til þess að kynna verkefni sitt fyrir hinum hópunum í skólanum í gær, en verkefnunum á að skila í lok næstu viku.

„Öllum prófum er lokið og því höfum við getað einbeitt okkur að þessu verkefni undanfarnar tvær vikur,“ segir Agla Eir Vilhjálmsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert