Verkfall verði stöðvað með lagasetningu

Birgir Jakobsson landlæknir.
Birgir Jakobsson landlæknir. mbl.is/Hallur

Birgir Jakobsson landlæknir vill að stjórnvöld setji lög til að stöðva verkföll innan heilbrigðiskerfisins. Hann segir að ákveðnar stéttir tefli lífi sjúklinga í hættu með aðgerðum sínum og við slíkt verði ekki unað lengur. 

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Hann sagði í samtali við fréttastofuna, að þetta væri ófremdarástand og að hann hefði aldrei kynnst öðru eins á sínum starfsferli. Spurður hvort hann vildi láta setja lög á verkfallið sagði hann: „Já, þessu verður að ljúka, það er ekki hægt að halda þessu áfram lengur.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í pistli sem birtur var á heimasíðu sjúkrahússins í gær að hann óttaðist að ekki væri hægt að tryggja öryggi sjúklinga. Undir það tekur Birgir. 

Aðspurður sagðist hann virða rétt fólks til verkfallsaðgera en hins vegar þá beri heilbrigðisstarfsfólki að setja öryggi sjúklinga í fyrsta sæti.

„Mér finnst að það sé verið að hliðra á því núna af sumum stéttarfélögunum og það er mjög alvarlegt að mínu mati,“ sagði Birgir í samtali við Stöð 2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert