„Þá er staðan 6-1 í dómsmálum,“ sagði Páll Halldórsson, varaformaður Bandalags háskólamanna, í samtali við mbl.is rétt í þessu, en Félagsdómur úrskurðaði í kvöld að verkfallsboðun Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins væri ólögmæt.
Málið sneri ekki að því hvort verkfallsaðgerðirnar sem slíkar væru ólögmætar, heldur hvort tilkynningu um þær hefði verið skilað á réttan stað.
Frétt mbl.is: Ríkið leitar að veikum hlekkjum
Páll segir úrskurðinn ekki hafa nein áhrif á aðrar aðgerðir sem í gangi eru.
„Þetta breytir því ekki að við búum við þetta grafalvarlega ástand og Landspítalinn er búinn að senda frá sér neyðaróp. Og það verður að fara að leysa þessa deilu,“ segir hann.
Hann segir ekkert hafa verið ákveðið um það hvort aftur verði fjallað um verkfall hjá FHSS.
„Ég legg nú bara megináherslu á að reyna að fara að finna einhverja lausn á þessari kjaradeilu, því mér sýnist hún nú vera að bíta ansi skarpt.“