Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir að Samtök atvinnulífsins séu hugmyndafræðilega gjaldþrota og hafi engan kjark til að stíga þau skref sem þurfi til að gera breytingar í launakerfum til að ná upp ásættanlegum dagvinnulaunum.
Þetta kemur fram í fréttabréfi sem Guðmundur sendi félagsmönnum síðdegis á föstudag. Þar segir hann menn ekki standa frammi fyrir neinu vali og því verði þeir að fara með vinnustöðvanir í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum og reyna að ná fram þeirra tillögum um breytingar á launakerfum.
Viðræðunefnd iðnaðarmannafélaganna sleit í vikunni kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífins. Félögin undirbúna nú atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um verkfallsheimild.
Pistill Guðmundar ber yfirskriftina „SA, samtök án framtíðarsýnar“.
„Enn á ný stöndum við frammi fyrir því við endurnýjun kjarasamninga að vera með viðsemjendur sem eru hugmyndfræðilega gjaldþrota. Þar hafa menn enga hugmyndafræði eða kjark að stíga þau skref sem þarf til að gera breytingar í launakerfum til að ná upp ásættanlegum dagvinnulaunum.
Við stöndum frammi fyrir sömu úreltu hagfræðifrösunum og hugmyndaleysinu og þegar við vorum plötuð í aðfarasamninginn og 2,8% launahækkunina. Um leið og búið var að skrifa undir kom í ljós að SA hafði ekki neinar hugmyndir um breytingar á launaumhverfi ólíkra hópa og því fór sem fór.
Nýjasta útspilið sem var sett fram í örvæntingu og með miðstýringaralræðið að leiðarljósi, er móðgun við okkur. Við höfum ítrekað bent á að þær breytingar sem víða er hægt að gera á launakerfum ólíkra hópa, verða ekki útfærðar með stöðnuðum hagfræðingum eða lögfræðingum,“ skrifar Guðmundur.
Hann segir ennfremur, að atvinnurekendur verði að koma beint að kjaraviðræðum, þeir þekki best vandamálin og lausnirnar sem hægt sé að vinna út frá til að gera breytingar.
Hann bætir við að innantóma framsetningin sé sett fram í nafni norræns vinnumarkaðsmódels. „Taka á afmarkaðan lið úr kjarasamningum frá Norðurlöndunum sem hentar SA og gera yfirvinnu ódýrari án þess að dagvinnulaun hækki verulega. Þetta er leið sem dæmd er til að mistakast ef halda á áfram með dagvinnulaun sem ekki er hægt að lifa á.“
Þá segir Guðmundur, að við menn ætli að komast inn í vinnumarkaðsfyrirkomulag eins og sé á Norðurlöndunum verði menn að taka allt kerfið upp, ekki bara eina setningu sem henti.
„Með framsetningu SA erum við að fara að spóla föst í sama hjólfarinu og við höfum gert í áratugi.
Við höfum ekkert val, við verðum að fara með vinnustöðvanir í atkvæðagreiðslu hjá félagsmönnum og reyna að ná fram okkar tillögum um breytingar á launakerfum.
Með staðnaðri hugmyndafræði SA erum við ekki að fara að leggja grunn að norrænu vinnumarkaðsmódeli þar sem náðst hefur ótrúlegur árangur í að auka kaupmátt með litlum launahækkunum,“ skrifar hann.
Guðmundur segir jafnframt, að Félag vélstjóra og málmtæknimanna vilji út úr því staðnaða launaumhverfi sem þeir séu í og hafi hugmyndafræðina og lausnirnar til að stíga vitræn skref inn í framtíðina.
„Sú staða sem komin er upp í dag og við þurfum að horfast í augu við skrifa ég eitthundrað prósent á SA.
Við höfum séð hvernig staðnaður kommúnismi fór með margar þjóðir í gjaldþrot. Hugmyndafræði SA er að leiða okkur á þann stað ef ekki verður rótæk breyting á stefnu þeirra samtaka,“ segir Guðmundur að lokum.