Gardínur seljast eins og heitar lummur

Þessar gardínur myndu ekki gera mikið gagn núna
Þessar gardínur myndu ekki gera mikið gagn núna mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við seljum þessar myrkvunargardínur í bunkavís á vorin. Við auglýsum þetta í sjónvarpinu tíu sinnum á dag þannig að þetta er varan,“ sagði Ívar Ívarsson, verslunarstjóri Rúmfatalagersins á Korputorgi, í samtali við mbl.is. „Þetta er varan sem allir kaupa og sólin virðist alltaf koma fólki jafn mikið á óvart.

Foreldrar ungra barna bölva margir hverjir sólinni sem kemur upp um miðja nótt þegar fer að vora og veldur því að krílin vilja spretta á fætur fyrr en eðlilegt getur talist. Eflaust grípa margir til þess ráðs að kaupa gardínur sem hleypa engu ljósi inn í herbergin, til þess að allir geti sofið lengur.

Ívar hefur unnið í tíu ár í Rúmfatalagernum. „Mér finnst salan aukast ár frá ári. Fólk kaupir þetta því það lokar alveg á birtuna. Þetta er keypt og sett þannig upp að rifan þar sem birtan kemur venjulega inn lokast alveg og raskar ekki svefninum.“

Magni Sigurhansson, starfsmaður í Álnabæ, tekur undir þetta með Ívari. „Sala á þessum gardínum rýkur upp á vorin, þá er tíminn til að selja þær. Enda er þetta árviss viðburður. Þá vakna blessuð börnin um miðjar nætur, halda það sé komin dagur og vilja fara út að leika en þurfa að sofa lengur. Fólk rýkur því til á hverju ári og kaupir svona gardínur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert