Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að það hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn að setja lög á verkfallsaðgerðir starfsfólks í heilbrigðisþjónustu. Hann á í daglegum samskiptum við landlækni og forstjóra Landspítala og segist enn bjartsýnn á að aðilar nái saman við samningaborðið.
Páll Matthíasson, forstjóri LSH, var ómyrkur í máli í pistli sem birtist á vefsíðu stofnunarinnar á föstudag, þar sem hann sagði m.a. að menn óttuðust að ekki væri hægt að tryggja öryggi sjúklinga á meðan verkfallsaðgerðir stæðu yfir.
Kristján hefur fylgst náið með þróun mála.
„Fram að þessu, eða þessum síðustu dögum, var það mat forstjóra Landspítala á framkvæmd verkfallsins að það gengi svona þokkalega, en svo fór að koma þessi tappi í afgreiðslu undanþágubeiðna frá læknum, aðallega hjá geislafræðingum,“ segir ráðherrann.
„Menn virðist greina á um þetta faglega og læknisfræðilega mat á stöðu sjúklingsins þegar kemur að afgreiðslu undanþágubeiðna. Þetta eru í grunninn ekkert mjög margir sjúklingar, því verkfallið hefur áhrif á miklu stærri hóp en þennan,“ segir hann. Hann segir að sér skiljist að málið verði skoðað eftir helgi.
Kristján segir samtöl sín við Pál og landlækni, Birgi Jakobsson, snúa að upplýsingagjöf um stöðuna. Birgir hefur kallað eftir því að stjórnvöld setji lög til á verkfallsaðgerðir innan heilbrigðiskerfisins, en Kristján segir umræðu þar að lútandi ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að svo stöddu.
„Ég horfi í raun þannig á að þetta séu mál sem verða ekki leyst öðruvísi en með samningum. Deilum um kaup og kjör lýkur alltaf með samningi og á meðan aðilar ræðast við held ég í þá von að menn nái saman. En nákvæmlega hvernig þau verk standa hef ég ekki á tæru,“ segir Kristján.
- En nú, þegar fram eru komnar þessar viðvaranir og menn búnir að taka svo djúpt í árinni að segja að líf sé í hættu, hljóta menn að spyrja sig hversu lengi þetta getur gengið?
„Já, það eru eðlilegar spurningar. Fullkomlega eðlilegar. Ég hef sagt það og get alveg sagt það aftur að ábyrgðin á þessari stöðu liggur ekkert á einum stað, hún liggur hjá báðum deiluaðilum, eðlilega. Og ég hef sagt að þeir beri þá sameiginlega ábyrgð í því efni að líkna og lækna þá einstaklinga sem mest þurfa á að halda og á meðan ekki takast samningar um kaup og kjör hljótum við að geta unnið þannig með málin að þetta veikasta fólk okkar fái þá aðhlynningu sem faglegt mat kallar á.“
- Metur hann aðstæður þannig að þær kalli á að hann beiti sér með einhverjum hætti á næstu dögum?
„Ég beiti mér bara með sama hætti eins og ég hef alltaf gert; að bera upplýsingar um stöðuna þar sem þeirra er þörf. Og það segir sig sjálft að þessi einstaka deila, henni verður ekkert kippt út fyrir aðra samninga sem eru í gangi eða eru lausir þegar við erum með allan vinnumarkaðinn í uppnámi.“