Farið verður yfir gögn frá Landspítalanum á fundi framkvæmdastjórar Landlæknis í dag og mun Birgir Jakobsson landlæknir skila skýrslu áhrif verkfallanna á heilbrigðiskerfi landsins síðar í vikunni.
Samkvæmt upplýsingum frá embættinu bárust gögnin til landlæknis á föstudag. Landlæknir hefur fylgst grannt með áhrifum verkfalla síðustu vikna á heilbrigðiskerfið og er skýrslan hluti af eftirliti hans.
Næsti fundur í kjaradeilu BHM við ríkið fer fram í húsnæði ríkissáttasemjara kl. 11 í dag.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, mun funda með forrystu Bandalags háskólamanna á morgun, þriðjudag. Hann biðlar til geislafræðinga að taka upp aðra starfshætti og vísar til þess að undanþágunefnd félagsins hafi hafnað miklu fleiri beiðnum en önnur félög sem eru í verkfalli.
Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga, segir verulega vegið að starfsheiðri sinna félagsmanna. „Það verður að segjast að við erum miður okkar yfir þessum árásum frá forstjóra Landspítalans og landlækni í garð okkar félags og jafnvel einstaklinga innan þess,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið í dag.
Í Fréttablaðinu í dag segir að stuðst verði við skýrslu landlæknis við mat á því hvort grípa eigi til lagasetningar á verkfall BHM sem hófst 7. apríl sl.
Birgir sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 á laugardaginn að hann vilji að stjórnvöld setji lög til að stöðva verkföll innan heilbrigðiskerfisins.
Sagði hann einnig að ákveðnar stéttir tefli lífi sjúklinga í hættu með aðgerðum sínum og við slíkt verði ekki unað lengur. „Já, þessu verður að ljúka, það er ekki hægt að halda þessu lengur áfram,“ sagði hann einnig.
Þá sagði Birgir í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að staða mála væri óásættanleg og verið væri að mylja heilbrigðiskerfið niður hægt og sígandi með þessu áframhaldi.