Þjóðverjar harma en virða ákvörðun Íslands

Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands.
Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands. KRISTINN INGVARSSON

Þýsk stjórnvöld harma að stjórn Íslands vilji ekki taka upp viðræður um aðild að Evrópusambandinu á ný, en virða um leið afstöðu íslenskra stjórnvalda. Þetta segir Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands, sem staddur er hér á landi.

Roth var spurður hvort þýsk stjórnvöld litu svo á að Ísland væri enn umsóknarríki. „Stjórn Íslands skrifaði Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess bréf um að ríkisstjórn Íslands vilji ekki taka upp aðildarviðræður á ný,“ segir hann. „Við hörmum þetta. Það hefði glatt mig verulega ef við hefðum getað leitt aðildarviðræðurnar til farsælla lykta. Auðvitað virðum við hins vegar afstöðu núverandi ríkisstjórnar.“

Roth sagðist telja að það hefði torveldað viðræður Íslands við Evrópusambandið að „ESB er um þessar mundir ekki beint í auðveldri stöðu“ í efnahags- og félagsmálum. „Í mörgum löndum er atvinnuleysi mikið, ekki er búið að yfirvinna kreppuna á fjármálamörkuðum og ríkisskuldakreppuna,“ segir hann. „Það hefur örugglega átt sinn þátt í því að Evrópusambandið kemur Íslendingum ekki jafn aðlaðandi fyrir sjónir og nauðsynlegt væri.“

Roth flutti í dag fyrirlestur í Norræna húsinu um hlutverk og framtíðarsýn Þýskalands gagnvart Evrópusambandinu.

Rækilegra viðtal við Michael Roth birtist í Morgunblaðinu á morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka