Ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga

Áhrif verkfalls félagsmanna BHM eru langmest á Landspítalanum.
Áhrif verkfalls félagsmanna BHM eru langmest á Landspítalanum. Sigurður Bogi Sævarsson

Ástandið í heilbrigðiskerfinu er komið út fyrir þau mörk að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga. Verkfallsaðgerðum verður að ljúka hið fyrsta og undanþágur verður að veita á tafar þannig að öryggi viðkvæmra sjúklingahópa sé ekki stefnt í hættu.

Þetta kemur fram í minnisblaði landlæknis um áhrif verkfalls BHM.

Embætti landlæknis óskaði eftir upplýsingum um áhrif verkfalls BHM á heilbrigðisþjónustu hjá eftirfarandi stofnunum: Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Svör bárust frá öllum stofnunum

Í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa borist Embætti landlæknis um áhrif verkfallsins á ofangreindar stofnanir fara áhrif þess vaxandi. Þau eru langmest á Landspítalanum (LSH) vegna umfangs og eðlis starfseminnar og þar eru fleiri starfsstéttir í verkfalli en á öðrum stofnunum. Frá upphafi verkfalls hefur samtals á stofnununum 354 skurðaðgerðum verið frestað, 50% myndgreininga (alls u.þ.b. 5.435 talsins), 60% blóðrannsókna og rannsóknum á vefjasýnum. Einnig hefur a.m.k. 1.538 dag- og göngudeildarkomum verið frestað.

Þessu til viðbótar koma upplýsingar frá LSH og Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK) um að undanþágubeiðnum sé synjað, sem setur vissa hópa sjúklinga í beina hættu. „Er þar fyrst og fremst um að ræða krabbameinssjúklinga og aðra sjúklinga sem þurfa á meðferð að halda sem verður að fylgja vel eftir með blóðrannsóknum og myndgreiningu. Skilaboðin eru skýr, stofnanirnar segjast ekki geta tryggt öryggi sjúklinga við þessar aðstæður, segir í minnisblaðinu.

„Það er mat Embættis landlæknis að ástandið í heilbrigðiskerfinu sé komið út fyrir þau mörk að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga. Verkfallsaðgerðum verður að ljúka hið fyrsta og undanþágur verður að veita án tafar þannig að öryggi viðkvæmra sjúklingahópa sé ekki stefnt í hættu. Embættinu er þó vel ljóst að aðgerðir sem binda endi á verkfall án þess að samningar náist leysa ekki vanda heilbrigðiskerfisins þegar til lengri tíma er litið. Ef til þess kæmi þurfa stjórnvöld að gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um að samningaviðræðum verði haldið áfram í þeim tilgangi að skapa viðvarandi vinnufrið innan heilbrigðiskerfisins. Því lengur sem verkfall stendur eykst hinn uppsafnaði vandi sem er hættulegur öryggi sjúklinga.“

Birgir Jakobsson landlæknir.
Birgir Jakobsson landlæknir. mbl.is/Hallur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka