Kjartan Magnússon, borgarsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundi borgarstjórnar í kvöld, þar sem ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 var samþykktur, að hægt væri að orða niðurstöðu ársreiknings með einni setningu: Fjármál Reykjavíkurborgar væru byggð á háum sköttum og lausatökum í fjármálum og bæru af þeim sökum mjög ákveðin einkenni sósíalískra stjórnarhátta.
Kjartan sagði borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna bera ábyrgð á því að skattheimta á Reykvíkinga væri í hámarki. Útsvarsprósenta væri í lögbundnu hámarki og fasteignaskattar á fólk og fyrirtæki væru að sama skapi mjög háir. Þessar háu skattgreiðslur skertu lífskjör almennings. Sagði hann háa skatta ekki vera sjálfsagða. Þannig væru á höfuðborgarsvæðinu rekin fyrirmyndarsveitarfélög án þess að íbúar þeirra væru skattpíndir.
Hann benti ennfremur á að Reykjavík væri langstærsta sveitarfélag landsins. Í því fælust mikil tækifæri til þess að nýta hagkvæmni stærðarinnar og stunda mun hagkvæmari rekstur en hægt væri í öðrum sveitarfélögum. Einn mesti áfellisdómur yfir fjármálastjórn borgarstjórnarmeirihlutans væri sá að hann legði ekki áherslu á að ná fram hagkvæmni stærðarinnar í rekstri borgarinnar.