Íhugaði að klifra ekki aftur

Vilborg Arna við upphaf leiðangursins upp Everestfjall.
Vilborg Arna við upphaf leiðangursins upp Everestfjall. Mynd/Vilborg Arna

„Ég viðurkenni það alveg að fyrstu nóttina eftir slysið var ég ekkert viss um að ég myndi nokkurn tímann klifra aftur. Það er þó eitthvað sem kemur til baka með tímanum og seinna vissi ég alveg að fjöllin eru mín ástríða,“ segir Vil­borg Arna Giss­ur­ar­dótt­ir.

Vil­borg kom aft­ur til Íslands á föstudag eft­ir átak­an­lega ferð til Nepals þar sem hún upp­lifði mann­skæðasta slys í sögu Ev­erestfjalls. Átján manns létu lífið og þar á meðal fimm úr henn­ar starfsliði. Er þetta annað árið í röð sem Vilborg hefur þurft að hætta við leiðangur á tind­inn vegna nátt­úru­ham­fara, en í fyrra fór­ust 16 nepalsk­ir leiðsögu­menn í snjóflóði á fjall­inu.

Vilborg segir síðustu vikur hafa verið mjög erfiðar, og að hún muni ekki fara neina stóra leiðangra á næstunni. Þá segist hún ekki viss um að hún muni reyna við tind Everest aftur, en það sé þó eitthvað sem komi í ljós síðar.

Hræðsla, sorg og vanmáttarkennd

Vilborg ætlaði sér að klífa hæsta tind hverrar heimsálfu á einu ári og standa að lokum á toppi Everest en þau áform breyttust eftir slysið í fyrra. Hún lagði þó aftur upp í leiðangurinn í apríl á þessu ári í von um að loka hringnum, og var komin upp í búðir eitt á fjallinu þegar snjóflóðið féll þann 25. apríl sl. í kjölfar öflugs jarðskjálfta upp á 7,9 í Nepal.

Vilborg segir mikla hræðslu hafa gripið um sig þegar flóðið féll en hún og félagar hennar grúfðu sig niður inni í tjaldi þegar þau áttuðu sig á því hvað var að gerast og óskuðu þess heitast að flóðið næði ekki til þeirra. Búðirnar sluppu, en þau komust fljótt að því að ekkert væri eftir af grunnbúðunum niðri. „Fyrst verður maður hræddur og svo verður maður sorgmæddur í kjölfarið. Loks verður maður máttvana vegna þess að maður veit að það eru félagar niðri sem eru slasaðir,“ segir hún og heldur áfram:

„Við vorum föst í búðum eitt og komumst hvorki upp né niður. Við gátum ekki aðstoðað þann hóp sem við vildum aðstoða, en að sama skapi ef okkar hópur hefði verið niðri hefðu talsvert fleiri slasast. Okkar kampur og þrír aðrir urðu verst úti svo það er lán í óláni að allir þeir klifrarar ásamt starfsfólki hafi verið uppi.

Ákváðu samdægurs að halda ekki áfram

Vilborg segir það hafa verið gríðarlega erfiða tilfinningu að vita af fólkinu slösuðu niðri en geta ekki aðstoðað það. „Á sama tíma vorum við mjög hrædd því við vissum að eftirskjálftar geta haft afleiðingar og heyrðum snjóflóð falla í hlíðunum í kring. Við vorum mjög heppin að eitt þeirra félli ekki á okkur,“ segir hún. „Það var mjög mikið óvissuástand og svo komum við niður og þá sá maður alla eyðilegginguna og áttaði sig á því að félagar höfðu slasast og fallið.“

Vilborg segir það hafa verið ljóst samdægurs að ferðinni upp tindinn yrði ekki haldið áfram. „Það var ekki þannig að leiðangrinum hefði verið aflýst heldur var það bara öllum ljóst að við myndum ekki halda áfram. Við erum mjög náið teymi og köllum okkur fjölskyldu og það er bara þannig þegar menn slasast eða deyja þá er það síðasta sem maður hugsar um að halda áfram.

Upplifðu mikla eyðileggingu

Vilborg segir ferðina niður hafa verið mjög átakanlega, en þá sá hún mikla eyðileggingu. „Gistihús sem við höfðum gist í á leiðinni upp voru lokuð og allir ferðamenn voru farnir úr dalnum svo það var mjög tómlegt,“ segir hún og bendir á að aðeins lítill hluti fólks á svæðinu klífi Everest, en fjölmargir fari í gönguferðir þar í kring. „Þetta hefur því mjög víðtæk áhrif á marga hópa.“

Á leiðinni niður gisti hópur Vilborgar meðal annars í þorp­inu Namche Baz­ar þar sem harður skjálfti reið yfir í dag. Þá hafði þorpið sloppið vel að sögn Vilborgar, en mikil eyðilegging hefur átt sér stað í dag vegna skjálftans. „Það er rosaleg vanmáttartilfinning að vita af enn frekari hamförum þarna. Mér líður ekki vel að lesa um þetta því maður tengist þessu svæði og ég þekki töluvert marga sem búa þarna í kring og maður hugsar til þeirra.

„Alltaf eitthvað sem maður tekur með sér úr svona“

Vilborg segir það hafa verið mjög erfitt að upplifa mannskætt slys annað árið í röð. „Þó þetta séu bæði náttúruhamfarir eru þetta mjög ólík slys, en svona hefur alltaf áhrif á mann og það er alltaf eitthvað sem maður tekur með sér úr svona,“ segir hún. 

Hún segir ferlið þó ekki hafa verið eins og í fyrra þar sem strax var ákveðið að enginn klifi fjallið, heldur hafi það tekið lengri tíma. „Við vissum það samdægurs að við myndum ekki halda áfram vegna þess hve margir voru slasaðir og fallnir en þeir kampar sem misstu ekki menn eða búnað ætluðu að halda áfram. Það var þó ákveðið að hætta við eftir nokkurn tíma af nokkrum ástæðum. Ein er til dæmis sú að margir eiga ættingja eða búa í þorpunum í kring og þurftu hreinlega að fara heim, og svo er hreinlega ekki öruggt að vera í fjallinu á meðan eftirskjálftarnir ríða yfir eins og sýndi sig í dag.

Hefur gríðarlega víðtæk áhrif

Vilborg segir það gríðarlega erfitt að horfa upp á heimamenn í Nepal ganga í gegnum náttúruhamfarir sem þessar annað árið í röð. „Það var til dæmis einn sem slasaðist í fyrra og ákvað að klífa ekki fjallið heldur sinna öðrum störfum, og lenti svo í framhaldinu í þessu. Þetta er mjög erfitt fyrir marga og hefur gríðarlegar afleiðingar. Fólk er að missa ástvini og húsin þeirra eru að eyðileggjast. Ferðaþjónustan lamast í kjölfarið sem er þeirra helsti atvinnuvegur svo þetta hefur mjög margvísleg áhrif og hugsanlega til lengri tíma.“

Reynir að hafa nóg fyrir stafni

Á leið sinni til Íslands tók Vilborg stutt stopp í London þar sem hún reyndi að átta sig á atburðum síðustu daga. Eftir að hafa komið heim segist hún svo hafa gert sitt besta við að komast inn í hversdagsleikann. „Maður reynir að hafa nóg fyrir stafni og svo skiptir auðvitað máli að vinna úr svona reynslu. Það versta sem fólk getur gert þegar það lendir í svona er að horfast ekki í augu við það og því hef ég alltaf haft skýra stefnu um að vinna úr svona hlutum eins og ég get.“

Hún segir enga stóra leiðangra framundan, en þó verði hún á ferð og flugi um íslensk fjöll og íslenskt landslag næstu mánuði. „Svo kemur það bara í ljós seinna hvort ég mun reyna við Everest aftur, en því get ég ekki svarað núna,“ segir hún.

Vilborg varð vitni af gríðarlegri eyðileggingu þegar komið var niður …
Vilborg varð vitni af gríðarlegri eyðileggingu þegar komið var niður í grunnbúðirnar. Mynd/Vilborg Arna
Átján manns létu lífið í flóðinu.
Átján manns létu lífið í flóðinu. Mynd/Vilborg Arna
Er þetta annað árið í röð sem Vilborg neyðist til …
Er þetta annað árið í röð sem Vilborg neyðist til að hætta við ferð sína upp fjallið. Mynd/Vilborg Arna
Teymi Vilborgar var afar náið og kalla sig fjölskyldu.
Teymi Vilborgar var afar náið og kalla sig fjölskyldu. Mynd/Vilborg Arna
Mikið af búnaði eyðilagðist, þar á meðal fartölva Vilborgar.
Mikið af búnaði eyðilagðist, þar á meðal fartölva Vilborgar. Mynd/Vilborg Arna
Snjóflóðið er mannskæðasta slys sem orðið hefur á Everest.
Snjóflóðið er mannskæðasta slys sem orðið hefur á Everest. Mynd/Vilborg Arna
Vilborg segir það hafa verið gríðarlega erfitt að horfa upp …
Vilborg segir það hafa verið gríðarlega erfitt að horfa upp á eyðilegginguna. Mynd/Vilborg Arna
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert