„Ríkið hefur gengið mjög langt í því að tekjujafna með skatta- og bótakerfunum,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Facebook. Þannig sé staðan í dag sú að ríkið hafi engar tekjur vegna tekjuskatts fyrr en laun nái um 240 þúsund krónum.
„Þegar tillit er tekið til barnabóta og vaxtabóta er staðan sú að ríkið greiðir meira út en það hefur í tekjur af tekjuskatti fyrir fyrstu fimm tekjutíundirnar. Við getum öll verið sammála um að það þarf að gera betur við þá launalægstu, en það er ljóst í mínum huga að það er komið að atvinnurekendum að bæta kjörin. Með því að ganga lengra í bótagreiðslum og skattleysi verður það alltaf þrengri og þrengri hópur í efstu tekjutíundum sem stendur undir öllum bótum og bróðurparti tekjuskatts ríkisins,“ segir Bjarni og bætir við:
„Það eru takmörk fyrir því í hve ríkum mæli ríkið á að taka að sér fyrir vinnuveitendur að tryggja mannsæmandi framfærslu.“