Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök atvinnulífsins hafa sent atvinnuveganefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingar á veiðigjöldum.
Samtökin eru í meginatriðum ósammála efni frumvarpsins og telja það hafa neikvæð áhrif á hagsmuni sjávarútvegsins og þar með landsmanna til lengri og skemmri tíma.
„Íslenskur sjávarútvegur verður að þróast og vera áfram í fremstu röð, en með vaxandi og óhóflegri skattheimtu er augljóst að tekjur hans munu dragast saman og framlegð minnka. Þetta mun hafa neikvæð áhrif á afkomu þjóðarbúsins sem treystir á sjávarútveginn sem eina af grunnstoðum sínum,“ segir m.a. í umsögninni.