Vigdís hristi upp í þingheimi

Tekið var eftir Vigdísi Hauksdóttur á Alþingi í dag.
Tekið var eftir Vigdísi Hauksdóttur á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Virkjanakostir og sú flókna staða sem nú er uppi á íslenskum vinnumarkaði var helst til umræðu undir dagskrárliðunum um fundarstjórn forseta og störf þingsins á Alþingi í dag.

Var mörgum þingmönnum nokkuð heitt í hamsi þegar þeir stigu í pontu og talsverður kliður í þingsal. Þurfti forseti þingsins því meðal annars að biðja um hljóð í salnum.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, var einn þeirra þingmanna sem báðu um orðið og má segja að hún hafi heldur betur vakið athygli viðstaddra.

„Það er skrítið að sjá að stjórnarandstaðan heldur hér málþófinu áfram sem þau hófu um áramót. [...] Ég bað upplýsingadeild þingsins um að taka það saman fyrir mig í gærkvöldi hvað væri búið að tala hér í marga klukkutíma undir dagskrárliðnum „fundarstjórn forseta.“ Og í gærkvöldi milli [klukkan] sjö og átta voru þetta komnir um níu klukkutímar. Virðulegur forseti - meira en einn vinnudagur,“ sagði Vigdís og bætti við: 

„Ég fékk senda slóð frá upplýsingadeildinni sem telur þetta jafn hraðan. Og það eru margir búnir að biðja um orðið undir þessum dagskrárlið í þessum töluðu orðum. Á eftir ætla ég að gefa merki og gefa nákvæma stöðu á því hvað það eru margar ræður búnar þegar þessari hrinu er lokið og í hve margar mínútur og klukkustundir.“

Breytingartillagan er lögleysa

Fyrstur þingmanna til þess að svara Vigdísi var Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. Sagði hann meðal annars það vera ákveðinn mælikvarða á ástandið í þinginu hversu oft talað væri undir liðnum um fundarstjórn forseta.

„Það eru margir þingmenn sem nota þennan lið til að koma mótmælum á framfæri. Það þarf að gera það þannig að eftir því er tekið. Við erum hér mörg sem teljum breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar lögleysu. Við viljum ekki og ætlum ekki að láta það gerast að svona verði farið í virkjanaframkvæmdir á Íslandi. Og að rammaáætlun og lög um hana verði eyðilögð,“ sagði Guðmundur.

Fór 115 sinnum í pontu í sama málinu

Því næst steig Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í pontu. Sagði hún áhugavert að Vigdís skuli taka það að sér að halda utan um hvernig stjórnarandstöðuþingmenn fari með tíma sinn á Alþingi.

„Þegar hún [Vigdís Hauksdóttir] var í stjórnarandstöðu þá fór hún 115 sinnum í pontu í einu og sama málinu og taldi það ekki vera málþóf né heldur að hún væri að segja sömu hlutina oft,“ sagði Bjarkey Olsen og benti á að dagskrárliður þessi væri tækifæri minnihlutans á þingi til þess að koma óánægju sinni á framfæri.

„Allra síst Vigdís Hauksdóttir“

Nokkru síðar mælti Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, og kom meðal annars inn á ummæli Vigdísar sem hann setti í samhengi við virkjanakosti.

„Nú er það ekki þannig að Alþingi vanti verkefni. Hér er nóg um að tala - hvort sem væri ástandið á vinnumarkaði eða að snúa sér að afgreiðslu nokkurra tuga frumvarpa sem liggja nú tilbúin til annarrar umræðu og afgreiðslu eftir störf vetrarins í nefndum. En það kemst ekkert að. Nema þetta forgangsmál. [...] Eitt skal vera á hreinu - hér er stórmál á ferð. Náttúra Íslands á bak við og það tekur enginn af mér rétt minn til þess að koma henni til varnar og allra síst Vigdís Hauksdóttir.“

Ætlaði ekki að taka til máls

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, lét einnig til sín taka undir þessum lið og sagði ástæðu þess að hann stigi í pontu vera ummæli Vigdísar.

„Ég hafði nú ekki hugsað mér að nýta mér þann lagalega rétt, samkvæmt þingsköpum, að taka til máls undir fundarstjórn forseta [...] fyrr en eftir að háttvirtur þingmaður Vigdís Hauksdóttir fjallaði um það að hún hefði beðið Alþingi um að taka saman um þennan dagskrárlið. Og mín beiðni til háttvirts þingmanns er sú að biðja um eitt skjal í viðbót - þar sem fundarstjórn forseta á síðasta kjörtímabili er borin saman [við þetta kjörtímabil].“ 

Voru ástæðurnar færri í tíð síðustu stjórnar?

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, beindi einnig ummælum sínum til Vigdísar.

„Hér kemur háttvirtur þingmaður Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar með tölulegar upplýsingar um hversu margar mínútur hafa farið í fundarstjórn forseta. Nú er spurningin í hvaða tilgangi þetta er gert. Kannski óttast háttvirtur þingmaður að nú séu einhver met að falla frá síðasta kjörtímabili? En ef hins vegar í ljós kemur að færri mínútur hafi farið í fundarstjórn forseta á síðasta kjörtímabili gefur það bara vísbendingu um að færri ástæður voru til að gera athugasemdir.“

Veruleikafirrt ástand á Alþingi

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði einnig athugasemdir við ummæli þingmanns Framsóknarflokksins.

„Ég hefði nú haldið, í þeim aðstæðum sem nú eru á vinnumarkaði, að formaður fjárlaganefndar hefði eitthvað meira að gera en það [að halda tímatal]. Það er nefnilega einfaldlega þannig að hér logaði allt í deilum og þá er tekin ákvörðun um að vera í einhverju veruleikafirrtu ástandi hér inni á Alþingi - að telja mínútur ræðumanna hér eða að standa í því að takast hér á um ráðstafanir á auðlindum þjóðarinnar.“

Minnihlutinn sár eftir síðustu kosningar

Nokkru síðar steig Vigdís Hauksdóttir aftur upp í pontu Alþingis. Þar sagði hún stjórnarandstöðuflokkana meðal annars sára vegna niðurstöðu síðustu kosninga. Viðbrögð þingmanna í salnum leyndu sér ekki og kölluðu margir þeirra til hennar.

„Þegar þessi orð eru töluð - er búið að tala sex hundruð sinnum undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta. Það er búið að tala í tíu og hálfa klukkustund frá áramótum. Það er orðið hádegi næsta dag. Svo mikið er búið að tala.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert