„Þetta er ekkert nema tjónið, sama hvernig á það er litið,“ segir Ingimundur Bergmann, kjúklingabóndi á Vatnsenda og formaður Félags kjúklingabænda. Hann segist óttast að það stefni hraðbyri í gjaldþrot hjá einhverjum bændum vegna verkfalls dýralækna sem staðið hefur yfir síðustu vikur.
„Þetta eru bara útgjöld en engar tekjur á móti,“ segir Ingimundur og bætir við að margir bændur hafi orðið fyrir gríðarlegu fjárhagslegu tjóni. Staðan sé þó vafalaust misjöfn þar sem sumir séu með lítil bú þar sem ekki er slátrað nema á nokkurra vikna fresti. „Við vorum til dæmis að taka á móti ungum þegar verkfallið skall á, og þeir ungar segja okkur til um hversu lengi verkfallið hefur staðið því þeir eru komnir í sláturstærð.“
Undanþágur fyrir slátrun hafa fengist í verkfallinu, gegn því að kjötið verði ekki selt. Þetta hefur gert það að verkum að kjúklingakjöt hrannast upp í frystigeymslum. Ingimundur segir bændur hafa brugðið á það ráð að leigja frystigeymslur undir kjúklingakjötið sem ekki má selja, þar sem allt sé orðið yfirfullt af kjöti.
Vegna þessa er vöruúrval af fersku kjöti í verslunum nánast ekkert, og farið er að bera á kjúklingaaskorti víða. Ferskur kjúklingur er búinn á flestum stöðum og frosinn alveg að klárast.
„Það er mjög dapurlegt að það skuli ekki vera reynt að semja við þetta fólk. Þetta er mjög slæm staða fyrir kjúklingabændur og alveg afleit. Ég man ekki eftir neinu í líkingu við þetta,“ segir Ingimundur. Hann segir það geta tekið langan tíma að selja umframbirgðir af frosnu kjöti þegar verkfalli lýkur, og því muni fylgja mikill kostnaður af afþíða og gera kjötið tilbúið til sölu.