Funda vegna rammaáætlunar

Miklar deilur standa nú á Alþingi um afdrif þingsályktunartillögu um …
Miklar deilur standa nú á Alþingi um afdrif þingsályktunartillögu um virkjanakosti í rammaáætlun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Formenn þingflokkanna munu koma saman til fundar áður en breytingatillaga við rammaáætlun verður tekin fyrir á þingfundi í dag. Forsætisráðherra tilkynnti í fyrirspurnatíma í morgun að breytingar hefðu verið gerðar við breytingatillöguna en þær hafa ekki verið lagðar fram formlega.

Þingfundur sem hófst kl. 10:30 í morgun hefur verið undirlagður af deilum um breytingatillögu sem meirihluti atvinnuveganefndar lagði fram við þingsályktunartillögu umhverfisáðherra vegna virkjanakosta í rammaáætlun. Stjórnarandstæðingar kröfðust þess að málið yrði tekið af dagskrá og ræddu það í dágóða stund í umræðum um fundarstjórn forseta við upphaf þingfundar.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma tilkynnti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hins vegar að umhverfisráðherra hefði gert samkomulag við meirihluta atvinnuveganefndar um breytingar á breytingartillögunni.

„Til að leiða fram sem mesta mögulega sátt hefur hæstvirtur umhverfisráðherra gert samkomulag við meirihluta atvinnuveganefndar um að draga til baka tillögu um að setja Hagavatn í nýtingarflokk að sinni svo að menn geta haldið áfram að velta þeim kosti fyrir sér í ró og næði,“ sagði Sigmundur Davíð í svari við fyrirspurn í morgun. 

Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru forviða yfir þeirri tilkynningu þar sem þeir höfðu ekki heyrt af samkomulaginu og tillagan hafði ekki verið lögð formlega fram. Gagnrýndu stjórnarandstæðingar forsætisráðherra og kröfðust þess af forseta Alþingis að hann tæki málið af dagskrá enda væri ekki lengur ljóst hvaða tillögu stæði nú til að ræða. Gerðu þeir lítið úr boði forsætisráðherra um sáttafund eftir umræðuna enda væri um síðari umræðu málsins að ræða. Forseti þingsins samþykkti að lokum að funda með þingflokksformönnum áður en þingfundi verður haldið áfram og breytingatillagan við rammaáætlun verður tekin til umræðu.

Var þingfundi frestað til kl. 13:30 á meðan þingflokkformennirnir funda um framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert