„Það þarf að fresta verkfalli með þriggja sólarhringa fyrirvara. Ef það átti að taka ákvörðun um slíkt þá þurfti að gera það í dag,“ segir Signý Jóhannesdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands en fyrr í morgun tilkynnti félagið með bréfi til SA og ríkissáttasemjara að boðuðum verkfallsaðgerðum 19. og 20. maí yrði frestað. Þar kom einnig fram að samningsumboð Starfsgreinasambandsins hefði verið dregið til baka.
Aðspurð hvað hafi orðið til þess að Stéttarfélag Vesturlands vildi ekki semja áfram með SGS segir hún samstarfið ekki hafa nægilega sterkt til þess að verkfallið biti.
Nefnir hún til að mynda að samstarfsfélögin hafi verið á undanhaldi frá fyrsta degi, eða frá því að byrjað var að telja atkvæði um verkfallsaðgerðir og segir hún félögin „hafa keppst við að semja út og suður“.
„Við höfum mótmælt þessum aðferðum alveg frá upphafi en það hefur ekki hlotið mikinn hljómgrunn innan samninganefndar Starfsgreinasambandsins,“ segir Signý og bætir við að þetta snúist að hennar mati um grundvallarsjónarmið á því hvernig unnið sé í kjaraviðræðum.
„Samstarfið hefur að okkar mati ekki verið að bíta. Við teljum að hópur landsbyggðafélaganna sé ekki nægilega sterkur til að verkföllin bíti,“ segir hún en rúmlega 350 félagsmenn eru í Stéttarfélagi Vesturlands; 110 verslunarmenn, 146 sem heyra undir þjónustusamninga og 205 í almenna samningnum.
Boðað hefur verið til allsherjarverkfalls hjá þeim hópum sem heyra undir þjónustu- og almenna samninga dagana 2. og 3. júní næstkomandi, segir Signý en verslunarmenn hjá stéttarfélaginu greiða um þessar mundir atkvæði um verkfall á sama tíma. Þá hefur verið boðað til ótímabundins verkfalls frá 6. júní.
„Við teljum að þetta falli betur saman á okkar svæði. Það er verið að kjósa um verkföll eftir ákveðnum starfsgreinum. Þar á meðal er lokun á matvöruversluninni 2. og 3. júní. Þegar við bárum þetta saman töldum við þetta vera það sem hentaði okkur best.“
Aðspurð hvort Stéttarfélag Vesturlands ætli í samstarf með öðrum stéttarfélögum segir Signý svo vera. „Við munum að öllum líkindum taka upp samstarf við Flóann og Landssamband verslunarmanna sem hafa verið með ákveðið samstarf. Við höfum verið boðin velkomin í þann hóp,“ segir hún.
Hvort kröfurnar breytist með flutningnum þangað yfir segir hún svo einnig vera. „Auðvitað er það þannig þegar þú ert í samstarfi með hópi að meirihlutinn ræður því hvernig kröfurnar líta út. Við höfum lagt áherslu á launahækkun þeirra sem hafa haft lökustu launin. Við erum tilbúin að taka árs samning og við höfum talað gegn því að leggja áherslu á að teygja launatöfluna. Í mínum huga þýðir það ekki að hækka laun þeirra tekjulægri,“ segir hún.
„Kröfur Flóans og verslunarmanna hafa hugnast sínum félagsmönnum betur en kröfur Starfsgreinasambandsins,“ segir hún og mun það skýrast á næstu dögum hvort af samstarfinu verður.