SGS frestar verkföllum

Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambands Íslands og Drífa Snædal framkvæmdastjóri.
Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambands Íslands og Drífa Snædal framkvæmdastjóri. Skapti Hallgrímsson

Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhuguðu verkfalli 10.000 félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands dagana 19. og 20. maí. Að auki hefur ótímabundnu verkfalli sem átti að hefjast 26. maí verið frestað. Það er mat samninganefndar SGS að gefinn skuli tími til úrslitatilrauna í samningaviðræðum á þessu stigi málsins.

„Með þessu axlar SGS ábyrgð á erfiðum kjaradeilum og gefur Samtökum atvinnulífsins tækifæri til að koma með tillögur sem hönd er á festandi áður en landið lamast í verkföllum og hér skellur á neyðarástand á vinnumarkaði,“ segir í fréttatilkynningu frá Starfsgreinasambandinu.

Frestun verkfalla á þessu stigi málsins er framlag Starfsgreinasambandsins til skynsamlegra lausna á kjaradeilunni, segir ennfremur í tilkynningunni. „Ljóst er að það verður að leysa málið og semja hvort sem það verður gert með verkfallsafli með ófyrirsjáanlegum afleiðingum eða með skynsemina að vopni. Boltinn er hjá Samtökum atvinnulífsins að nálgast skynsamar og ábyrgar kröfur Starfsgreinasambandsins.“

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hefur því ákveðið eftirfarandi:

Verkföll sem áttu að koma til framkvæmdar 19. og 20. maí er frestað til 28. og 29. maí.

Ótímabundnu verkfalli sem átti að koma til framkvæmda 26. maí er frestað til 6. júní.

„Eftir tvær vikur hefjast verkföll af stærðargráðu sem við höfum ekki séð áður ef ekki tekst að semja. Þau munu hafa veruleg og víðtæk áhrif og það er mikið til vinnandi að afstýra slíku. Framlag Starfsgreinasambandsins í þessu samhengi er að gefa andrými næstu tvær vikurnar til að semja svo ekki þurfi að koma til þessara hörðu aðgerða,“ er haft eftir Birni Snæbjörnssyni formanni Starfsgreinasambandsins, í tilkynningunni.

Frumkvæðið Vestlendinga?

Fyrr í morgun tilkynnti Stéttarfélag Vesturlands með bréfi til SA og ríkissáttasemjara sömu ákvörðun, sem tekin var á fundi samninganefndar félagsins 12. maí sl., þ.e. að fresta boðuðum aðgerðum 19. og 20. maí, um leið og ákveðið var að draga samningsumboðið hjá SGS til baka.

Á vef félagsins segir að formaðurinn, Signý Jóhannesdóttir, hafi varað mjög við því að gerðir séu samningar við einstaka fyrirtæki, í stað þess að semja við SA um aðalkjarasamning sem gildi fyrir alla þá sem greiddu atkvæði vegna boðaðra verkfalla. Er þarna verið að vísa m.a. til kjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness, Eining-Iðja í Eyjafirði og Framsýn á Húsavík hafa verið að gera við einstök fyrirtæki á sínum svæðum.

„Þarna hefur verið í raun um grundvallar ágreining að ræða. Samninganefnd Stétt Vest, sem er skipuð Trúnaðarráði og trúnaðarmönnum á vinnustöðum, hefur staðið árofin á bak við skoðun formannsins. Kjarabarátta er langhlaup, sem stendur yfir í áratugi og hundruð ára og á ekki að byggjast á tækifæristilboðum sem koma mönnum undan verkföllum,“ segir í frétt á vef félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert