Breytingartillaga Jóns Gunnarssonar við rammaáætlun er enn á dagskrá Alþingis í dag, þriðja daginn í röð. Fjöldi þingmanna stjórnarandstöðunnar hefur mótmælt dagskránni harðlega við upphaf þingfundar í morgun. Segja þeir enga verkstjórn vera til staðar hjá ríkisstjórninni og Ísland sé forystulaust.
Þingfundur átti að hefjast á óundirbúnum fyrirspurnum kl. 10:30 í morgun. Hann hófst hins vegar á því að stjórnarandstæðingar komu einn af öðrum í pontu undir liðnum fundarstjórn forseta til að gagnrýna það að breytingar á rammaáætlun væru enn á dagskránni.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvort eyða ætti enn einum deginum í að ræða rammaáætlun og hvort engar þarfari hugmyndir væru til staðar en fánýtt þras um ótímabærar virkjanahugmyndir. Varpaði hann þeirri hugmynd fram að engin verkstjórn væri í landinu yfir höfuð.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði óverjandi að hafa málið á dagskrá þingsins og sagði að Ísland væri í raun forystulaust. Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að engin mál verði kláruð í þinginu á meðan málið er á dagskrá. Fjöldi stjórnarandstöðuþingmanna hafa síðan komið í pontu og hafa meðal annars krafist þess að forseti Alþingis fresti fundi og kalli þingflokksformenn saman til fundar um framhaldið.