„Fregnir um að lífi sjúklinga sé stefnt í hættu vegna þess að þeir fá ekki viðeigandi meðferð vegna verkfalla vekja óhug. Sérfræðingur í krabbameinslækningum segir að fáist ekki nauðsynlegar undanþágur kunni svo að fara að það kosti mannslíf. Nauðsynlegar undanþágur hljóta því að verða veittar tafarlaust.“
Þetta segir Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á vefsíðu sinni í dag. Rifjar hún ennfremur upp að neyðarástand hafi ríkt á svínabúum þar sem ekki sé hægt að slátra dýrunum. Eðli verkfalla sé því miður þannig að þau bitni oft ekki síður á öðrum en þeim sem vinnudeilan beinist að. Fyrir vikið sé verkfallsvopnið bæði beitt og vandmeðfarið.
„Verkföll hljóta að vera þrautalending, þar sem svo mikið er lagt undir og svo miklu fórnað og þau verða að skila þeim sem hana heyja árangri. Um það er varla deilt lengur að það sem skiptir langmestu máli er að tryggja kaupmátt þeirra launa sem fólk aflar,“ segir hún og bætir við: „Til að verja kaupmáttinn er því lykilatriði að þeir kjarasamningar sem nú er verið að reyna að ná verði gerðir með það að markmiði að halda þeim stöðugleika sem nú ríkir í efnahagskerfinu.“