Skrifað var undir kjarasamning í Karphúsinu í morgun hjá kennurum við Tækniskólann og vöfflur bakaðar af því tilefni, eins og venja er. Vöffluilmurinn olli hálfgerðu uppnámi í húsinu þar sem samninganefndir SA, Flóans, VR, BHM og ríkisins sátu á fundum.
„Hér spruttu menn fram úr fundarherbergjunum, þegar þeir fundu ilminn,“ segir Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Ríkissáttasemjara, létt í bragði, í samtali við mbl.is, en viðbrögð samninganefndarmanna segja kannski ákveðna sögu um spennustigið í viðræðunum, sem fara fram í skugga boðaðra verkfallsaðgerða.
Kl. 9 í morgun hófst fundur Samtaka atvinnulífsins (SA) við Flóabandalagið, VR og Landssamband ísl. verslunarmanna. Um svonefndan vinnufund er að ræða og svipaður fundur hófst síðan kl. 10 í kjaradeilu ríkisins og BHM, Bandalags háskólamanna.