Í dag þjónar kerfið ekki lengur fólkinu, kerfi sem var búið til á einfaldari tímum. Okkur er talin trú um það á hverjum degi að við höfum engin völd. Það er lygi, sagði Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, á TEDxReykjavík 2015 sem fer fram í Tjarnarbíói í dag.
Birgitta fjallaði meðal annars um gagnagögn (e. metadata) og sagði hún að stafræn saga fólks væri aðgengileg öllum þeim sem hafa áhuga á henni. Líkti hún stafrænu sögunni við skugga sem eltir manneskjuna alltaf.
Stafræni skugginn er þó frábrugðinn hinum skugganum á þann hátt að hann er hægt að selja, breyta og deila. Spurði hún áhorfendur hvort þeir kjósi ekki að draga gluggatjöldin á heimili þeirra þegar þeir gera eitthvað persónulegt, líkt og að stunda kynlíf. Í stafræna húsinu þínu hefur þú ekkert val, sagði Birgitta.
Birgitta sagðist hafa alist upp í sjávarplássi á Íslandi, hún hafi verið öðruvísi en hinir og séð sig í hlutverki ljóta andarungans. Hún hafi aftur á móti lært að breyta erfiðleikunum í styrkleika.
Faðir og eiginmaður Birgittu létu sig báðir hverfa en þeir kusu að taka sitt eigið líf. Sagðist Birgitta hafa notað erfiðleikana til að byggja sig upp. Þegar eiginmaður hennar hvarf og lét lífið nokkrum árum eftir að faðir hennar lést lærði hún síðan að lifa við mikið óöryggi.
Við bjuggum til kerfið og við getum því auðveldlega breytt því aftur, sagði Birgitta og bætti við að það sem gæti sýnst ómögulegt í dag gæti verið mögulegt á morgun. Ég hvet til til að byrja að útbúa áætlun (e. blueprint) fyrir framtíðina, sagði hún.
Bylting, það er uppáhalds orðið mitt. Orðið þýðir breytingar, þróun með ást. Maðurinn virðist vilja láta tímann standa kyrran. Við getum sem einstaklingar breytt heiminum en við þurfum að stíga fram, sagði Birgitta.
Fyrir átta árum var Birgitta einhleyp þriggja barna móðir. Hafði hún mikinn áhuga á að breyta samféalginu en hana hafði aldrei dreymt um að verða stjórnmálamaður líkt og hún er í dag. Sagði hún einnig að hún hefði fengið martröð um daginn þar sem hana dreymdi að hún væri orðin forsætisráðherra og vísaði þar í að skoðakannanir hafa verið Pírötum í hag að undanförnu.
Mér er alveg sama þó að ég verði ekki í þessu starfi á morgun, sagði Birgitta. Ég lofaði að vera pirrandi flugan í tjaldinu og ég hef staðið við það loforð.
Í lokin sagði Birgitta að henni þætti afar mikilvægt að gera nýja stjórnarskrá. “Það er augljóst að við getum ekki haft hlutina svona áfram,” sagði Birgitta.
Sagði hún að við sem samfélag hefðum mjög góð verkfæri í höndunum og hvatti viðstadda til að leita að þeim. „Ef þú vilt lifa í lýðræði verður þú að taka þátt í því. Það er vinna og hún er erfið en hluti af daglegri rútínu okkar,“ sagði Birgitta.