Matfugl og Reykjagarður hófu í gær að dreifa kjúklingakjöti í verslanir víða. Hratt var farið að ganga á birgðirnar í verslunum landsins vegna verkfalls dýralækna og stefndi í óefni hjá kjúklingabændum.
Kjúklingabændur fengu undanþágu fyrir slátrun gegn því skilyrði að kjötið yrði fryst en ekki sett á markað. Forsvarsmenn Matfugls hafa sagt að slík skilyrði eiga enga stoð í lögum.
Fram kom í sameiginlegri yfirlýsingu frá fjölmörgum svína- og alifuglafyrirtækjum í gær að varlega áætlað sé tjón svína- og alifuglabúgreinanna áttatíu til hundrað milljónir króna á viku vegna þess að eðlileg slátrun sé ekki leyfð og vegna ólögmætra skilyrða dýralækna um að heilbrigðisskoðuð vara fari ekki á markað.
„Undirritaðir hagsmunaaðilar munu kanna grundvöll þess að sækja bætur fyrir það tjón sem þeim er valdið með þessum ólögmætu þvinguðu skilyrðum,“ sagði í yfirlýsingunni.
Frétt mbl.is: Tjónið 80-100 milljónir á viku