Orkuveitan tilnefnd til umhverfisverðlauna

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Orkuveita Reykjavíkur er á meðal þeirra sem tilnefnd eru til náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015.

Þema verðlaunanna í ár er losun gróðurhúsalofttegunda. Haft er eftir dómnefnd verðlaunanna á vef Norðurlandaráðs að verðlaunin verði veitt fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem sett hefur fordæmi með þróun vöru eða uppfinningar eða öðrum skapandi aðgerðum sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum til framtíðar.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að framlag hennar í þessum efnum sé einkum sá sparnaður í kolefnislosun sem fæst með hitaveitum fyrirtækisins. Nærri lætur að útblástur koltvísýrings á Íslandi myndi tvöfaldast nyti þeirra ekki við og kynt væri með olíu í staðinn. Hitaveitur OR þjóna um þremur af hverjum fjórum íslendingum og er það víðfeðmasti veiturekstur fyrirtækisins.

„Þá hefur Orkuveitan leitt alþjóðlega rannsókna- og þróunarverkefnið CarbFix. Með því hefur verið sýnt fram á að hægt er að binda koltvísýring varanlega í basaltbergi. Tilraunir hafa staðið yfir frá árinu 2007. Borkjarnar sem sóttir voru á tilraunasvæðið við Hellisheiðarvirkjun í fyrra sýndu að koltvísýringur sem fangaður hafði verið úr útblæstri virkjunarinnar og dælt niður í grennd við hana hafði kristallast í berggrunninum. Um 70 vísindagreinar um CarbFix verkefnið hafa birst í alþjóðlegum vísindaritum,“ segir í tilkynningunni.

Ljóst er að samkeppnin um verðlaunin verður hörð. Fleiri en fjörutíu tilnefningar bárust dómnefnd verðlaunanna. Ein tillaga barst frá Færeyjum, níu frá Finnlandi, sjö frá Noregi, fimmtán frá Svíþjóð, ein frá Grænlandi og þrjár frá Íslandi. Auk Orkuveitu Reykjavíkur voru Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hér á landi og umhverfisvefurinn natturan.is tilnefnd til verðlaunanna af Íslands hálfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert