„Þegar litið er til baka er svo dásamlegt að hugsa til þess hve ríkur maður hefur orðið af kynnunum við alla þessa unglinga og líka af því að finna fyrir þakklæti og jákvæðum viðbrögðum. Ekki síst frá foreldrunum,“ segir Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla í Reykjavík, í samtali við mbl.is en skólinn fagnar 30 ára afmæli sínu 21. maí og verður afmælisdagskrá af því tilefni í Iðnó.
Tjarnarskóli var stofnaður árið 1985 af þeim Margréti og Maríu Solveigu Héðinsdóttur. Fyrstu tvö árin var skólinn starfræktur í Miðbæjarskólanum við Fríkirkjuveg sem hýsir nú Kvennaskólann í Reykjavík, en síðan var starfsemin flutt yfir götuna að Lækjargötu 14b þar sem hann hefur verið til húsa síðan. Þrjár bekkjardeildir í 8., 9. og 10. bekk eru í skólanum og hefur verið þannig frá upphafi.
Tugir blaðagreina ritaðar gegn skólanum
Margrét hefur verið skólastjóri Tjarnarskóla frá upphafi en María sneri sér að öðrum verkefnum fyrir um tíu árum síðan. Þegar skólinn var settur á laggirnar varð talsvert fjaðrafok og voru ritaðar fjölmargar blaðagreinar gegn honum.
„Það hafði ekki verið stofnaður nýr sjálfstæður skóli í talsvert mörg ár þegar við ákváðum að stíga þetta skref vinkonurnar. Við bara kýldum á þetta. Ég held að ég eigi um 60-70 blaðagreinar sem voru skrifaðar um stofnun hans og þær voru eiginlega allar neikvæðar. Þá var fólk náttúrlega að gefa sér það að tilgangurinn með stofnun skólans væri að græða á honum. En það hefur aldrei verið raunin, heldur lengst af verið mikill fjárhagslegur barningur,“ segir Margrét.
Spurð hvernig það hafi komið til að þær María stofnuðu skólann segir hún: „Við María höfðum kennt saman í þrjú ár og oft talað um að okkur langaði að stofna skóla sem kæmi betur til móts við þarfir unglinga.“ Þetta hafi þannig fyrst og fremst verið hugsjónastarf. Unglingsárin væru mjög sérstakt aldursskeið þar sem margt gæti bjátað á. Þeim hafi þótt heillandi að reyna að koma til móts við þarfir unglinganna á forsendum hvers og eins. Slagorð skólans væri enda að allir eru einstakir.
Fjölbreyttir skólar fyrir ólíka einstaklinga
„Þannig er einfaldlega gengið út frá því að hver og einn sé bara eins og hann er á eigin forsendum og við reynum að mæta nemendum okkar bæði í námi og félagslega. Styrkja þá í því að vera manneskjur og vera tilbúnir að takast á við lífið og tilveruna þegar þeir fara frá okkur. Ég held að það séu margir þakklátir fyrir að til sé skóli af þessu tagi. Sumir þrífast mjög vel í stóru skólunum en svo finnst mörgum notalegt að geta komið í svona lítinn og heimilislegan skóla,“ segir Margrét. Mikilvægt sé að hennar mati að framboð á skólum sé sem fjölbreyttast vegna þess að einstaklingarnir séu svo ólíkir.
Spurð að lokum hvort þær María hafi búist við því þegar Tjarnarskóli var stofnaður að þremur áratugum síðar yrði skólinn enn starfandi segir Margrét að hún hugsi að þær hafi ekkert verið að velta því fyrir sér og hlær. „Við vorum eiginlega alltaf að hugsa bara um núið og næsta vetur. Vitanlega var mörkuð framtíðarsýn en ég held að við höfum aldrei verið að horfa til ársins 2015 og velta því fyrir okkur hvað við værum að gera þá.“