Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til Ólafar Nordal innanríkisráðherra þar sem meðal annars er spurt hvort óheimilt sé að taka myndir eða myndbönd af lögreglumönnum við störf. Tilefnið eru samskipti tónlistarmannsins Halldórs Bragasonar við lögreglumann í gærkvöldi sem mbl.is hefur fjallað um.
Jón Þór spyr ennfremur að því hvenær, og þá á grundvelli hvaða laga, reglna eða annarra réttarheimilda, sé lögreglumönnum heimilt að banna upptökur af sér. Þingmaðurinn spyr að sama skapi að því hvort lögreglumenn fái „þjálfun í faglegum samskiptum við borgarana með það að leiðarljósi að halda samskiptunum þannig að ekki þurfi að beita valdi“. Hvaða lögreglumenn fái slíka þjálfun, í hverju hún felist og hversu löngum tíma sé varið í hana.
Þá spyr Jón Þór að því hver viðurlögin séu við því ef lögreglumaður gefur fólki skipun sem brýtur gegn meðalhófi eða réttmætri valdbeitingu í ljósi kringumstæðra.
„Fyrirspurnin er lögð fram í ljósi þess að almennt ætti það að þjóna hagsmunum allra sem ekki brjóta lög og reglur að upptökur séu til þegar ágreiningur rís á milli lögreglu og borgaranna,“ segir í greinargerð með fyrirspurninni. Þá er vísað í frétt mbl.is um málið.