„Þetta hefur svo sem verið að þokast mjög lítið hjá okkur en við erum samt að fást við efnisatriði málsins,“ segir Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, í samtali við mbl.is. Fundað verður í kjaradeilu félagsins við ríkið hjá Ríkissáttasemjara á morgun klukkan 13:00.
„Þetta er tvískipt. Annars vegar er um að ræða það hvernig kerfið er uppbyggt og hins vegar hversu miklir fjármunir eru settir í þetta. Það hangir síðan saman varðandi tímalengdina og annað. Hvað fyrri hlutann áhærir þá hygg ég að það geti eitthvað farið að þokast en það er erfiðara með seinni partinn,“ segir Páll. Aðspurður segir hann að BHM hafi notað helgina til þess að fara betur yfir málin.
BHM sendi frá sér fréttatilkynningu fyrir helgi þar sem lýst var yfir þungum áhyggjum af stöðu kjarasamningsviðræðna við ríkið. Þar sagði ennfremur: „Það er mat nefndarinnar að þótt fullt tilefni sé til að ganga harðar fram í verkfallsaðgerðum verði það ekki gert að svo stöddu.“