„Það er þungt yfir mönnum“

Fundur BHM og samninganefndar ríkisins hjá Ríkissáttasemjara í dag var …
Fundur BHM og samninganefndar ríkisins hjá Ríkissáttasemjara í dag var árangurslaus. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar

„Það er frekar þungt yfir mönnum, þá aðallega viðsemjendum okkar,“ segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, í samtali við mbl.is. Fundi í kjaradeilu Bandalags háskólamanna og ríkisins lauk síðdegis í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Páll Halldórsson, formaður BHM, sagði í samtali við mbl.is að fundurinn hefði verið með öllu árangurslaus. Ríkið hefði greinilega engan áhuga á því að leysa verkfallið.

Gunnar segir að hver líti sínum augum á silfrið. Þó sé ljóst að menn eru ekki bjartsýnir á að kjaradeilan leysist í bráð. „Því miður er staðan þannig. Það er enn langt á milli. Það er ekki í augsýn að við getum náð einhvers staðar sameiginlegum fleti,“ nefnir hann.

Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni.

„Vonarglætan varð að engu“

Páll segir í tilkynningu frá BHM að „sú vonarglæta sem vaknaði fyrir um viku að samningaviðræður væru loksins hafnar eftir nokkurra mánaða setu með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara varð að engu í dag.

Það er deginum ljósara að enginn samningsvilji er hjá ríkinu.“

Hann segir ríkisstjórnina augljóslega ekki tilbúna til að taka forystu við lausn deilunnar. BHM hafi verið tilbúið að ræða ýmsar leiðir til lausnar en þrátt fyrir það hafi ríkið ekki fengist í þá vinnu af alvöru og það sýnt sig að þeir séu að bíða eftir að samið verði á almennum vinnumarkaði. Með þessu sýni ríkið starfsmönnum sínum vanvirðingu þar sem samningsréttur þeirra sé ekki virtur.

„Stjórnvöld hafa að engu þau víðtæku áhrif sem verkfallsaðgerðir starfsmanna þeirra hafa og virða að vettugi þá grafalvarlegu stöðu sem löngu er komin upp í samfélaginu. Þessi staða er algerlega á ábyrgð ríkisins,“ segir Páll.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins.
Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert