Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að einhugur sé um það í ríkisstjórninni hvernig beri að nálgast húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra. Þetta kom fram í sexfréttum Ríkisútvarpsins.
„Félagsmálaráðherra hefur lýst því að hún sé tilbúin að gera þær breytingar sem þurfa þykir á frumvarpinu til þess að liðka fyrir kjarasamningum og til þess að stuðla að góðri niðurstöðu kjarasamninga.
Við erum öll sammála um það í ríkisstjórninni. Þannig að það er alger einhugur um það hvernig ber að nálgast þetta mál, að það eigi að nýta tækifærið núna til þess að stuðla að farsælli niðurstöðu á vinnumarkaði og bæta um leið stöðu heimila í landinu,“ sagði Sigmundur Davíð.
Eygló sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hún hefði unnið í miklu samráði við aðila vinnumarkaðarins, meðal annars að húsnæðismálum. „Ég vonast til þess að sú vinna leiði til niðurstöðu fljótlega.“
Frumvarp Eyglóar um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt húsnæði var lagt inn í fjármálaráðuneytið til kostnaðarmats en þeirra vinnu hefur verið hætt.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að ástæða þess væri sú að komið hefði ljós að unnið væri að breytingum á frumvarpinu. Ekki hafi því verið talin ástæða til þess að halda þeirri vinnu áfram fyrr en endanleg útgáfa frumvarpsins lægi fyrir.
Eygló benti í dag á að fjármálaráðuneytið hefði staðfest að frumvarpið hefði ekki verið dregið til baka líkt og greint var frá í fjölmiðlum í síðustu viku.
Frétt mbl.is: Vonast eftir lendingu fljótlega