Gætu fengið allt að 9 ára dóm

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Ingólfur Helgason …
Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Ingólfur Helgason eru meðal ákærðu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Mynd/mbl.is

Æðstu yfirmenn Kaupþingsbanka gætu fengið allt að níu ára dóm fullnýti dómari málsins refsiramma ásamt ákvæði í 72. grein almennra hegningarlaga um aukna refsingu. Saksóknari í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings fór fram á að dómari myndi horfa til þessa í lok málflutnings síns í dag, en með því gætu refsing Sigurðar og Hreiðars fyrir þetta mál og Al-Thani-málið orðið að hámarki níu ár samtals.

Saksóknari lagði einnig til að refsirammi yfir Ingólfi yrði nýttur til fulls og tiltók hann einnig 72. grein laganna sem nýta mætti vegna þess hve brotin hefðu staðið yfir í langan tíma. 

Í máli annarra ákærðu í málinu tiltók saksóknari ekki hvaða refsingu hann færi fram á. Hann tók þó fram að starfsmenn eigin viðskipta, þeir Pétur Kristinn Guðmarsson, Birnir Sær Björnsson og Einar Pálmi Sigmarsson, hefðu allir unnið samkvæmt fyrirmælum yfirmanna sinna, en að um stórfeld og alvarleg brot væri að ræða og að þeir hafi gert sér grein fyrir afleiðingum þeirra.

Varðandi mál Bjarka Diego, fv. framkvæmdastjóra útlána bankans, sagði saksóknari að í ljósi alvarleika þeirra umboðssvika sem hann væri ákærður fyrir og annarra mála sem dæmt hefði verið í hlyti hann að fá þunga refsingu. Saksóknari sagði að í tilfelli Bjarkar Þórarinsdóttur, sem sat í lánanefnd samstæðunnar, væri aftur á móti hægt að horfa til skilorðsbindingar ef hún yrði sakfelld. Í öðrum málum væri það aftur á móti krafa ákæruvaldsins að dómar yrðu ekki skilorðsbundnir.

Saksóknari sagði ekkert varðandi kröfu um refsingu yfir Magnúsi Guðmundssyni, fv. forstjóra Kaupþings í Lúxemborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert