Fullt var út úr dyrum á málþingi Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands um miðhálendið sem fór fram um helgina. Til máls tók fjölbreyttur hópur sérfræðinga og voru gestir fræddir um þau huglægu og hlutlægu verðmæti sem felast í óbyggðum víðernum hálendisins. Meðal þeirra var Sigurður Jóhannesson hagfræðingur sem sagði að í krónum talið mætti álykta að hálendið sé í það minnsta 80 milljarða virði.
Sigurður, sem er hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, útskýrði að ekki væri einfalt að meta efnahagslegt virði miðhálendisins. Sigurður benti þó á rannsóknir Þjóðverjans David Bothe sem skoðaði í upphafi aldarinnar verðmæti lands sem fór undir Kárahnjúkavirkjun. Niðurstöður Bothe voru að landið væri að minnsta kosti 2 milljarða króna virði. Sigurður tók fram að almennt neysluverð hefði síðan hækkað um 100 %. Sigurður minntist einnig á athuganir Tryggva Felixssonar hagfræðings sem hefur bent á að allt hálendið, yfir 400 m.y.s., er um það bil 20 sinnum stærra en áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Sigurður sagði að því mætti álykta, að hálendið allt væri a.m.k. 80 milljarða virði.