Það er ljóst að sú markaðsmisnotkun sem ákært er fyrir varði allt ákærutímabilið og að ákærðu vöktu yfir markaðinum og voru tilbúnir að grípa inn í ef það þurfti. Þannig var Kaupþing að handstýra verði eigin bréfa og slíkt er hreint dæmi um ólöglega markaðsmisnotkun sem getur varðað allt að 6 ára fangelsi. Þetta kom fram í málflutningi saksóknara í morgun, en í dag fer fram fyrsti dagur af fimm í málflutningi í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings.
Sagði saksóknari að það hefði komið aftur og aftur fram að verið væri að tryggja óvenjulegt verðlag með viðskiptum deildar eigin viðskipta, en ekki verð sem markaðurinn skapaði sjálfur. „Það er einfaldlega refsivert,“ sagði hann.
Saksóknari fór í upphafi gróflega yfir málið og hvernig hver og einn ákærðu tengdust hverjum ákærulið. Því næst hóf hann að fara yfir málið í tímaröð og tengir þar tölvupóstsamskipti og símtöl við gjörðir á markaði. Sagði hann að ákærðu hafi mætavel verið ljóst hvað þeir væru að gera og að eftirspurn eftir bréfum hafi verið minni en framboð. Það hafi verið meginástæða þess að þeir keyptu bréf í pöruðum viðskiptum í Kauphöllinni, en seldur þau aftur í utanþingsviðskiptum. Vitnaði saksóknari til þess að slík viðskipti hefðu minni áhrif og væru til skemmri tíma en pöruðu viðskiptin. Viðskipti eigin viðskipta bankans hafi því ekki ráðist af fréttaflutningi og væntingum á markaði með viðskiptaleg sjónarmið í huga, heldur hafi markmiðið verið að halda uppi og styðja við gengi bankans, sama hvað það kostaði.
Saksóknari fór meðal annars yfir símtal milli Einars Pálma Sigmundssonar, fv. forstöðumanns eigin viðskipta og Péturs Kristins Guðmarssonar, fv. starfsmanns deildarinnar, þar sem þeir tala um að setja niður hælana. Saksóknari sagði þetta ríma vel við hegðun Péturs á markaði þennan dag þar sem hann hafi verið með fleiri viðskipti þennan dag en alla aðra daga mánaðarins. Þá hafi gengi bréfanna lækkað mikið þennan dag, en eftir að Pétur hóf að setja inn tilboð í miklu magni hafi lækkunin stoppað.
Í öðru símtali milli þeirra Einars og Péturs frá í nóvember 2007 ræða þeir svo um að reyna að hækka Kaupþing ekki of mikið og að „vonandi verði heilbrigð verðmyndun.“ Ræddi saksóknari talsvert um þessa notkun ákærðu á heilbrigðri verðmyndun og sagði það sýna að þeir vissu vel að aðgerðir þeirra sköpuðu venjulegan markað. Sagði hann ekki skipta máli vörn ákærðu um að þeir hafi verið að skapa seljanleika. „Raunverulegt markmið er að styðja við gengið og það er markaðsmisnotkun,“ sagði saksóknari.
Einnig var vitnað til samtals sem Einar Pálmi átti við innri endurskoðun í almennri yfirferð deildarinnar. Sagði Einar þar að eign eigin viðskipta væri 80% í Kaupþingi. Það sé ekki vegna þess að þeir vilji eiga svona mikið af bréfum, heldur séu þeir að sjá til þess að bréfin lækki ekki of mikið eða of hratt. Sagði Einar að allir bankarnir væru að styðja við eigin bréf, passa upp á lækkun og jafna sveiflur. Saksóknari sagði þetta einmitt lýsa þeirri markaðsmisnotkun sem ákært er fyrir í hnotskurn. Sú vörn að allir hafi gert þetta sé ekki vörn, heldur hafi það orsakað meiri skell fyrir samfélagið þegar bankarnir svo féllu allir.
Í öðru símtali milli Ingólfs Helgasonar, fv. forstjóra bankans á Íslandi og Birnis Sæs Björnssonar, fv. starfsmanns deildarinnar, spyr Birnir hvort að þeir megi ekki leyfa þessu að „sunka.“ Segir Ingólfur þá að það sé í lagi þar sem þeir ráði ekki við verðið á svona degi.
Í fleiri símtölum kemur svo ítrekað fram að starfsmenn deildarinnar sækja að fá fyrirmæli frá Ingólfi um hvað eigi að gera á markaðinum og hvernig eigi að stilla tilboðum upp. Saksóknari segir þetta sýna fram á að Ingólfur hafi stýrt deildinni beint og er meðal annars vitnað til samtala þar sem Ingólfur bannaði að bréf væru seld úr deildinni. Þá segir Ingólfur einnig í símtali við Pétur um miðjan janúar að þeir þurfi að mynda vegg en ekki að selja neitt.