Í morgun fór hinn 13 ára gamli Viktor Andri Hermannsson á fætur og ákvað, án þess að hafa hugsað nokkuð um það áður, að gefa 167 þúsund krónur til ABC barnahjálpar. Peninginn hafði Viktor fengið í gjöf þegar hann fermdist þann 12. apríl síðastliðinn í Grensáskirkju en hann segir að honum hafi hreint ekki dottið í hug að nota þá í eigin þágu, enda vanhagi hann ekki um neitt.
„Mig langaði að gera eitthvað gott og svo mundi ég að þegar við vorum í kirkjunni var kona frá ABC sem kom og talaði,“ segir Viktor um ástæður þess að hann ákvað að styrkja ABC. „Þessir krakkar þurfa peninginn meira en ég.“
Viktor segir að sér líði afar vel með þessa ákvörðun sína en þó svo að hann svari spurningum blaðamanns kurteisilega er ljóst að hann vill sem minnst gera úr góðmennsku sinni. Hann viðurkennir þó að uppátækið sé eflaust nokkuð óhefðbundið. „Konunni sem ég rétti peninginn brá svolítið,“ segir hann og skal engan undra enda hafði Viktor ekki gert boð á undan sér áður en hann mætti á skrifstofur ABC barnahjálpar. „Þau sögðu að þetta myndi hjálpa og að þetta gæti gert mjög mikið.“
ABC barnahjálp starfar nú í átta löndum í Asíu og Afríku en starfið snýr að því að veita fátækum börnum tækifæri til menntunar og hjálpa götubörnum til nýs lífs með því að veita þeim heimili og menntun. Á heimasíðu ABC stendur m.a. til boða að kaupa gjafabréf upp á 1.000 krónur en fyrir þá upphæð má greiða mat fyrir barn í heilan mánuð. Gjöf Viktors getur því verið nýtt til að brauðfæða 167 börn í heilan mánuð en eins gæti hún verið nýtt til að greiða skólavist 56 barna í mánuð, eða jafnvel til að veita 104 börnum aðgang að heilsugæslu í eitt ár.
Þó svo að Viktor sé afar hógvær sér faðir hans, Hermann Jónsson, eðlilega enga ástæðu til að draga úr þegar kemur að stolti sínu á syninum en hann segir gjöf Viktors hafa komið sér algjörlega í opna skjöldu. „Ég er alveg að springa úr stolti. Þetta er akkúrat það sem að maður vill að börnin sín tileinki sér í lífinu. Hann er stórkostlegur.“ segir Hermann.
„Ég hafði ekki hugmynd um þetta, hann bað mig að skutla sér og sagði mér heimilisfangið. Ég spurði hann hvað hann væri að fara að gera og hann sagði að það væri leyndarmál. Það var ekki fyrr en við vorum komnir uppeftir að ég fékk að vita hvað við værum að fara að gera.“
Hermann segist hafa spurt Viktor hvort hann vildi ekki heldur kaupa eitthvað handa sjálfum sér en að hann hafi ekki tekið það í mál. „Við fórum út í bíl og ég gat varla talað því ég var svo klökkur og stoltur en þá sagði hann allt í einu: Pabbi þetta er rétt, það er sælla að gefa en að þiggja. Mér líður svo vel núna.“
Systir Viktors, Selma Björk, hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðan hún greindi frá slæmu einelti sem hún varð fyrir. Hélt hún meðal annars fyrirlestur á TedxReykjavík í gær og hlaut mikið lof fyrir. „Hún hefur veitt mér mjög mikinn innblástur. Hún er fyrirmyndin mín og mig langar að verða eins og hún,“ segir Viktor.
Hermann segir Selmu fá mikla og verðskuldaða athygli en að hann sé ekki síður stoltur af syninum. „Ég segi það alltaf að ég er stoltur af báðum mínum börnum. Hjartahlýjan og góðmennskan í þessum dreng er alveg ótrúleg,“