Halldór Ásgrímsson látinn

Halldór Ásgrímsson.
Halldór Ásgrímsson. mbl.is/Eyþór Árnason

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lést á gjörgæsludeild Landspítalans í gærkvöldi, 67 ára að aldri.

Halldór fékk alvarlegt hjartaáfall í sumarbústað sínum í Grímsnesi sl. föstudag og var í kjölfarið fluttur á Landspítalann.

Halldór fæddist á Vopnafirði hinn 8. september árið 1947. Foreldrar hans voru Ásgrímur Halldórsson, framkvæmdastjóri á Höfn í Hornafirði, og Guðrún Ingólfsdóttir húsfreyja. Halldór lauk prófi við Samvinnuskólann árið 1965 og varð löggiltur endurskoðandi árið 1970. Sótti hann framhaldsnám í verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn frá 1971 til 1973.

Halldór var lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands á árunum 1973 til 1975 og sat á Alþingi 1974 til 1978 og aftur frá 1979 til 2006, eða í samanlagt 31 ár.

Hann var varaformaður Framsóknarflokksins frá 1980 til 1994 og formaður frá 1994 til 2006. Halldór gegndi ráðherraembætti í samtals 19 ár. Hann var sjávarútvegsráðherra frá því í maí 1983 fram í apríl árið 1991 en á þeim árum gegndi hann einnig tímabundið störfum samstarfsráðherra Norðurlanda og dóms- og kirkjumálaráðherra.

Í maímánuði árið 1995 var hann skipaður utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna. Fyrrnefnda embættinu gegndi hann til ársins 2004 en því síðarnefnda til ársins 1999.

Hann fór einnig með landbúnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið vorið 1999 auk þess sem hann fór með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið í janúar og febrúar árið 2001 í forföllum Ingibjargar Pálmadóttur.

Halldór var skipaður forsætisráðherra hinn 15. september árið 2004 og gegndi hann því embætti allt fram til júnímánaðar árið 2006 þegar hann ákvað að draga sig út úr stjórnmálum.

Auk framantalinna embætta var Halldór um skeið formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands og sat í ýmsum nefndum á vegum Alþingis.

Hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar hinn 1. janúar 2007 og gengdi því starfi fram í mars 2013.

Halldór lætur eftir sig eiginkonu, Sigurjónu Sigurðardóttur læknaritara, og þrjár uppkomnar dætur, þær Helgu, Guðrúnu Lind og Írisi Huld, auk barnabarna og barnabarnabarna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka