Höfnuðu hækkun sem nemur 24%

Samtök atvinnulífsins hafa verið tilbúin að koma til móts við kröfur verkslýðsfélaganna um verulega hækkun lægstu launa og umtalsverða hækkun dagvinnulauna fyrir þriggja ára samning, eða sem nemur um 24% hækkun.

Þessu boði höfnuðu verkslýðsfélögin í dag, „án þess að leggja fram nokkrar raunhæfar lausnir um nýjan kjarasamning sem tryggir launafólki aukinn kaupmátt, viðheldur lágri verðbólgu og jafnvægi í efnahagslífinu,“ að því er segir í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins.

Eins og fram hefur komið var samningaviðræðum Samtaka atvinnulífsins við VR og Flóabandalagið slitið í dag hjá ríkissáttasemjara.

Í tilkynningunni frá SA segir að staðan í kjaradeilunum sé nú mjög flókin og fáir góðir kostir í boði. Vandséð sé að hægt sé að forða víðtækum verkföllum verkalýðshreyfingarinnar. Afleiðingar þeirra verði alvarlegar fyrir bæði launafólk, fyrirtæki og þjóðarhag.

„Verði ítrustu kröfur verkalýðsfélaganna knúnar fram með verkföllum verða afleiðingarnar hins vegar enn verri. Verðtryggðar skuldir heimila og fyrirtækja munu hækka mikið, vextir hækka og störfum fækka. Við slíkum búsifjum má Ísland vart við um þessar mundir en verkalýðsforystan hefur valið að fara þá leið. Þessi niðurstaða veldur Samtökum atvinnulífsins miklum vonbrigðum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert