Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu harðlega á Alþingi í dag fjarveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við umræðu um rammaáætlun og fóru þess á leit við Einar K. Guðfinnsson, forseta þingsins, að hann kæmi þeim skilaboðum til ráðherrans að nærveru hans væri óskað við umræðuna.
Langar umræður á Alþingi um rammaáætlun hafa farið fram á Alþingi undanfarna daga og staðið fram á kvöld. Stjórnarandstæðingar hvöttu til þess í dag að málið yrði tekið af dagskrá þingsins en stjórnarliðar sökuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar um að þæfa málið og koma í veg fyrir að hægt væri að greiða atkvæði um það.