Mandarínendur gleðja nú fuglaunnendur víða um land en að minnsta kosti þrír steggir hafa sést hér á landi í liðinni viku.
Skrautlegur steggur heimsótti Borgarfjörð eystri og hélt sig þá í og við fjöruna nálægt Bræðslunni. Tveir steggir til viðbótar héldu til í austanverðum Eyjafirðinum og vöktu athygli viðstaddra með eftirtektarverðu útliti sínu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Heimsóknum þessara skrautlegu gesta hefur fjölgað að vorlagi síðustu ár á sama tíma og þeim hefur fjölgað í náttúru Bretlandseyja, þar sem varp þeirra hefur aukist.