„Ég er glöð með þetta og hlakka til framhaldsins, að taka slaginn við ríkið. Það hlýtur að bakka með sína miðstýringu í þessu máli,“ segir Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is, en tillaga hennar um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga um dýrahald á opinberum stöðum var samþykkt á borgarstjórnarfundi fyrr í dag.
Sammæltist borgarstjórnin um að beina því til ríkisvaldsins að sveitarfélögunum verði í sjálfsvald sett hvernig þau kjósa að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, svo sem á kaffihúsum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum, samkomuhúsum og svo framvegis.
Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallavinar sátu hjá, en aðrir samþykktu tillöguna.
„Það kom mjög skemmtilega á óvart að hver borgarfulltrúinn á fætur öðrum í meirihlutanum tók undir þessa skoðun mína um að það sé sjálfsögð krafa að í Reykjavík sé passað upp á ramma þar sem það er aðeins meira frelsi og sjálfsákvörðunarréttur. Að það sé tillitssemi í ábyrgð okkar gagnvart hvert öðru í samfélagi manna og dýra,“ segir Hildur.
Hún segir réttlætismál að sveitarfélög hafi svigrúm gagnvart eigendum staða að leyfa dýrahald ef þeir óska þess. „Það er sjálfsagt að ríkið slaki á þessari miðstýringu og leyfi sveitarfélögunum að ráða þessu sjálf.“
Það sé fyrsta skrefið en Hildur bindur vonir við að sveitarfélögin muni í kjölfarið haga reglum sínum með þeim hætti að eigendum staða verði frjálst að stýra því hvort gæludýrum verði veittur aðgangur eða ekki.
„Fyrsta skrefið er allavega að gefa sveitarfélögunum þetta vald en ef ég væri í meirihluta myndi ég auðvitað vilja að eigendur viðkomandi staða fengju að ráða þessu sjálfir.“
Frétt mbl.is: Ríkisvaldið rýmki reglurnar