Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir það skynsamlegt að breyta forminu á stuðningi Reykjavíkurborgar við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann segist gjarnan vilja fá fleiri sveitarfélög að borðinu. Borgin eigi þó áfram að vera traustur bakhjarl Sinfóníunnar.
Hann lagði fram tillögu á borgastjórnarfundi í dag þar sem skorað er á Alþingi og mennta- og menningarmálaráðherra að endurskoða lögin um Sinfóníuhljómsveitina með það fyrir augum að breikka hóp bakhjarla sveitarinnar og skjóta þannig öflugri stoðum undir rekstur hennar.
Rætt var um tillögu borgarfulltrúa sjálfstæðismanna á fundinum um breytt greiðslufyrirkomulag vegna hljómsveitarinnar. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi greiðir Reykjavíkurborg 18% af rekstrarkostnaði Sinfóníunnar, en sjálfstæðismenn í borgarstjórn telja eðlilegt að önnur sveitarfélög taki þátt í þessum kostnaði. Leggja þeir til að Reykjavíkurborg greiði 58% af núverandi framlagi en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu 42%.
Dagur sagði á fundinum að málið hefði oft verið til umræðu í gegnum tíðina, sérstaklega á seinasta áratugi. Sögulegar ástæður væru fyrir því að svona væri búið um hnútana. Reykjavíkurborg hefði áður gert athugasemdir við þetta form á samstarfinu og lagt þess í stað til að samþykktur yrði samstarfssamningur.
„Það er sérstakt að eitt sveitarfélag sé skyldað með lögum, frekar en í gegnum samninga, til að standa á bak við Sinfóníuna,“ sagði Dagur og nefndi að góð sátt væri um tvennt í þessu máli. Annars vegar um stuðning borgarinnar við hljómsveitina og hins vegar þá hugsjón, sem kæmi fram í tillögu sjálfstæðismanna, um að önnur sveitarfélög, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, ættu að gera það einnig.
Dagur sagði að af áskrifendum Sinfóníuhljómsveitarinnar væru 69% búsettir í Reykjavík. „Þó að flestir áskrifendur séu Reykvíkingar, meira að segja líka hlutfallslega, þá er um 31% áskriftarhafa frá öðrum sveitarfélögum. Þá eru auðvitað miklu fleiri sem sækja tónleika hljómsveitarinnar, þó svo að þeir séu ekki áskrifendur,“ sagði borgarstjóri.
Frétt mbl.is: Krefst greiðsluþátttöku annarra sveitarfélaga