Gert er ráð fyrir því að um 300 manns sem starfa við flugafgreiðslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar muni leggja niður störf í verkfallsaðgerðum Flóabandalagsins 31. maí og 1. júní.
Samkvæmt upplýsingum frá Guðbrandi Einarssyni, formanni Verslunarmannafélags Suðurnesja munu aðgerðirnar hafa gífurleg áhrif og þá aðallega þegar það kemur að fluginnritun og flutnings farangurs inn í flugvélar. Ef ekki næst að semja hefjast aðgerðirnar á miðnætti 31. maí og standa til miðnættis 1. júní en allsherjarverkfall á að hefjast 6. júní.
Að sögn Guðbrands eru það bæði félagsmenn í Verslunarmannafélagi Suðurnesja og í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis sem leggja niður störf. Guðbrandur telur mjög líklegt að aðgerðirnar muni lama alla starfsemi flugstöðvarinnar.
„Ég myndi halda að það verði erfitt að halda út starfsemi í Leifsstöð þessa daga. Auðvitað er það leyfilegt samkvæmt lögum að yfirmenn og forstjórar og slíkt gangi í störf undirmanna en ég efast um að þeir séu nógu margir til þess að innrita og bera töskurnar,“ segir Guðbrandur í samtali við mbl.is.
En það eru ekki aðeins þeir sem starfa við innritun og töskur sem leggja niður störf. „Það eru stærstu hóparnir en til dæmis munu þeir sem sjá um að fylla á vínið og matinn í vélunum leggja líka niður störf og jafnframt þeir sem þrífa vélarnar. Það eru auðvitað líka stórir hópar,“ segir Guðbrandur. „Það má reikna með þvi að þetta lami flugsamgöngur til og frá landinu.“
Aðspurður hvort hann sé áhyggjufullur yfir stöðunni sem er nú komin upp svarar Guðbrandur því játandi. „Ég er auðvitað áhyggjufullur yfir því að við skulum ekki ná samningi. Það er okkar hlutverk að ná samningi en það gengur ekki eins og þetta lítur út núna. En við höldum bara áfram að tuða og finnum lausn á þessu.“
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair og Wow Air hafa flugfélögin ekki tekið ákvarðanir um breytingar á flugáætlunum eða um önnur viðbrögð við mögulegum verkfallsaðgerðum.
„Við höfum ekki tekið neinar ákvarðanir um að breyta áætlunum okkar fyrir þessa tvo daga, þær eru óbreyttar. Við vonumst til þess að það náist að semja og erum bjartsýn á að það komi ekki til truflana. Ef þannig fer snýst okkar starf um það að koma öllum viðskiptavinum áfangastað með eins lítilli röskun og hægt er,“ segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air tekur í sama streng. Hún segir að flugfélagið hafi ekki breytt áætlunum sínum yfir þessa daga.
„Farþegar hafa þó nokkuð hringt í þjónustuverið okkar og spurst fyrir um verkfallið. Við höfum þó ekki orðið vör við það að bókanir hafi dregist saman í kringum þetta tímabil,“ segir Svanhvít og bætir við að flugfélagið muni aðstoða alla farþega eins og kostur ef er að verkfalli verður. Að sögn Svanhvítar mun öll aðstoð taka mið af reglugerð Samgöngustofu um réttindi flugfarþega í verkföllum. Þar kemur m.a. fram að þegar flugi er aflýst vegna verkfalls á farþegi rétt á að velja um endurgreiðslu eða fá breytingu á flugleið. Farþegi á þannig alltaf rétt á endurgreiðslu á fullu miðaverði við aflýsingu flugs.
Hér má sjá vef Samgöngustofu þegar það kemur að réttindum flugfarþega í verkföllum.