„Þetta er myrkraverk“

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er myrkraverk sem ég tel að ráðherrann hafi ekki heimild til að gera án aðkomu Alþingis og ég krefst þess að menntamálaráðherra verði sem allra fyrst hér til að svara spurningum um þetta mál,“ sagði Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag þar sem hann gagnrýndi Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra harðlega vegna hugmynda hans um að sameina ýmsa framhaldsskóla á landsbyggðinni.

Kristján sagði Illuga meðal annars hafa í hyggju að sameina annars vegar Menntaskólann á Ísafirði og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og hins vegar Framhaldsskólann á Húsavík og Framhaldsskólann á Laugum. Sameinaðir skólar ættu að taka til starfa næsta haust. Vakti Kristjan máls á því að Illugi hefði ekki verið viðlátinn undanfarnar tvær vikur til þess að ræða málið en hann hefði óskað eftir sérstakri umræðu um málið við ráðherrann. Hann hefði í morgun tekið eftir því að Illugi væri mættur aftur til starfa.

Kristján sagði Illuga hafa verið „að senda sína embættismenn um í skjóli nætur og í raun og veru hótandi skólayfirvöldum um sameiningar þar sem ekki er verið að kynna áform heldur tilkynna það að ráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að sameina ýmsa skóla og að sameinaðir skólar eigi að taka allir til starfa í haust.“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tók undir með Kristjáni og sakaði Illuga um „að vinna spellvirki á framhaldsskólum vítt og breitt um landið og hann gengur fram án nokkurs lýðræðislegs umboðs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert