Fagnar blaðagrein Bjarna

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

„Ég fagna því að hæstvirtur fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tali með þessum hætti,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag í tilefni af aðsendri grein Bjarna Benediktssonar í Morgunblaðinu í dag þar sem hann kallar eftir breytingum á stjórnarskránni sem taki á umhverfis- og auðlindamálum, þjóðaratkvæðgreiðslu og takmörkuðu framsali valdheimilda sem bera mætti undir þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum á næsta ári.

„Það hefur verið áhugamál okkar í Samfylkingunni að halda áfram með stjórnarskrárbreytingar á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs og á nýlegum landsfundi Samfylkingarinnar var sérstaklega samþykkt að stefnt yrði að því að ná saman um akkúrat þessa þætti á næsta ári. Það er líka athyglisvert að forystumenn Framsóknarflokksins hafa talað með skýrum hætti um að það þurfi alvöru þjóðareignarákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum í tengslum við umræðu um sjávarútvegsmál,“ sagði Árni Páll.

Hins vegar vildi hann slá þann varnagla að um alvöru þjóðareignarákvæði yrði að ræða en ekki einungis almenn stefnuyfirlýsing sem hefði enga þýðingu. Ákvæðið yrði að skapa nýtt form eignarréttar og leggja bann við að slík eign yrði seld og áskilið að greiðsla kæmi ávallt fyrir afnot auðlindanna. Það væri alger lágmark. Þá þyrfti að gera þær breytingar að þriðjungur þingmanna gæti vísað málum í þjóðaratkvæði. Sagðist hann vonast til að breið samstaða næðist í þessum efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert