Stóraukið framboð á flugferðum til N-Ameríku

Alls verða 20.956 flugsæti í boði frá Íslandi í viku hverri til 13 borga í Norður-Ameríku með íslensku flugfélögunum Icelandair og WOW air í sumar. Brottfarirnar eru 295 samtals á viku. Icelandair er með 284 ferðir frá Keflavík til Norður-Ameríku og WOW air er með 11 ferðir í hverri viku. Norrænu flugfélögin SAS og Norwegian fljúga til mun færri borga í Norður-Ameríku. SAS flýgur til 5 borga, New York, San Francisco, Chicago, Houston og Washington. Norwegian flýgur til 4 borga núna sem eru New York, Orlando, Miami og Fort Lauderdale en í haust bætist Las Vegas við sem áfangastaður. Norðurlandabúar geta því komist til 19 borga alls í Norður-Ameríku með þessum fjórum flugfélögum.

Fleiri borgir að bætast við

Á vefsíðunni Check-In kemur fram að Icelandair sé stærra en Norwegian og SAS þegar kemur að sætaframboði í flugi til Norður-Ameríku í sumar og sé því orðið alvöru keppinautur í samkeppninni. Tiltekið er að Boston sé vinsælasti áfangastaðurinn hjá Icelandair en þangað sé flogið þrisvar á dag auk þess sem flug til New York sé einnig þrisvar á dag þar sem tvær flugferðir eru farnar á JFK-flugvöllinn og ein flugferð á Newark. SAS og Norwegian bjóða samanlagt tæplega 47 þúsund sæti vikulega í 186 brottförum fram og til baka til átta borga.

Icelandair ætlar að bæta við fleiri áfangastöðum í Norður-Ameríku en nú þegar eru 18.756 sæti í boði vikulega frá Keflavík. Í gær hófst flug til Portland og tilkynnt hefur verið að Chicago bætist við í mars á næsta ári. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að vöxturinn í Ameríku-fluginu byggist á leiðakerfi Icelandair og tengiflugi milli Norður-Ameríku og Evrópu. „Með aukinni tíðni og fjölda áfangastaða styrkist starfið jafnt og þétt. Þetta gefur íslenskri ferðaþjónustu stóraukinn markaðsaðgang.“ Spurður um sætanýtingu segir Guðjón að allt gangi samkvæmt áætlunum um þessar mundir.

Stefnir í 90% sætanýtingu

WOW air flýgur til tveggja borga í Norður-Ameríku, Boston og Washington DC. Að sögn upplýsingafulltrúa félagsins, Svanhvítar Friðriksdóttur, eru áform um að bæta við fleiri áfangastöðum á næsta ári. Flugfélagið flýgur núna 6 sinnum í viku til Boston og 5 sinnum í viku til Washington. WOW air er með samtals 2.200 sæti vikulega frá Keflavík til Norður-Ameríku, 1.200 sæti eru í boði á viku til Boston og 1.000 sæti til Washington DC. „Þegar við hófum sölu á ferðum til Norður-Ameríku í október á síðasta ári ætluðum við eingöngu að fljúga fjóra mánuði á ári og þrisvar í viku til Washington DC en áfangastaðurinn gekk mun betur en við héldum í fyrstu og var því ákveðið í janúar að fljúga þangað allan ársins hring og var bætt við einu flugi á viku.“ Svanhvít segir að í haust verði tilkynnt um nýja áfangastaði í Ameríku sem verður byrjað að fljúga til á næsta ári. „Við reiknum með að meira en tvöfalda framboð okkar á næsta ári til Norður-Ameríku.“ Á þessu ári er gert ráð fyrir að 120 þúsund sæti verði í boði hjá WOW air til Norður-Ameríku og segir Svanhvít að stefni í 90% sætanýtingu í maí og í sumar.

Tæplega 21.000 flugsæti eru í boði til Norður-Ameríku frá Keflavík.
Tæplega 21.000 flugsæti eru í boði til Norður-Ameríku frá Keflavík.
WOW flýgur m.a. til Washington.
WOW flýgur m.a. til Washington. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert