Hallgrímur Jökull Ámundason, íslenskufræðingur og örnefnafræðingur á nafnfræðisviði Árnastofnunar, fór fyrir liðna helgi af stað með söfnun örnefna og annarra heita í Vesturbæ Reykjavíkur. „Þetta hefur skilað býsna góðum árangri,“ segir hann og bætir við að söfnunin sé í fullum gangi.
Nafnfræðisviðið heldur utan um örnefnasafn Íslands. Hallgrímur segir að dæmigerð örnefnasöfnun hafi snúist um örnefni í sveitum landsins, eins og til dæmis fjallanöfn og bæjarnöfn. Hann hafi haft áhuga á örnefnum í þéttbýli og ekki síst óformlegum örnefnum sem verði til upp úr þurru. Meðal annars hjá börnum í leik, sem búi sér til nöfn yfir marga hluti, hvort um sé að ræða leikvelli eða leynistaði, sem krakkar uppgötvi þegar þeir skottist um hverfið og haldi að enginn þekki. „Þessi nöfn eru þess eðlis að þau komast sjaldan á prent, eru bara til í barnahópnum og gleymast ef þau færast ekki á milli kynslóða,“ segir hann.
Hallgrímur segir erfitt að finna þessi nöfn í rituðum heimildum. Þau séu helst í æskuminningum fullorðins fólks og því hafi hann ákveðið að gera tilraun og leita til Vesturbæinga á Fésbókinni til þess að safna saman þessum nöfnum. „Ég hef til dæmis fengið dágóðan lista af rólónöfnum,“ segir hann og bendir á að á milli Neshaga og Melhaga sé Kókakólaróló. Nafnið sé til komið vegna þess að verksmiðjan Vífilfell, sem framleiði Coca-Cola, hafi hafið starfsemi í Haga við Hofsvallagötu, sem liggi að leikvellinum. Verksmiðjan hafi verið flutt fyrir mörgum áratugum, en krakkarnir í hverfinu þekki enn leikvöllinn sem Kókakólaróló. „Þetta er dæmi um nafn sem hefur gengið á meðal barna áratug eftir áratug þó að uppruni þess sé löngu farinn annað.“
Örnefnasöfnunin er hliðarverkefni við doktorsritgerð, sem Hallgrímur vinnur að um nöfn í Reykjavík með áherslu á nöfn á götum og húsum frá fyrri tíð. Hann bendir á að nöfnin séu mikilvægur hluti af sögu borgarinnar. Á sínum tíma hafi til dæmis stéttarfélög byggt blokkir við Hjarðarhaga og þær beri enn upphaflegu nöfnin eins og kennarablokkin og símamannablokkin. Gamla KR-blokkin sé við Birkimel og sú nýja við Kaplaskjólsveg. „Lögguhúsið við Tómasarhaga 38-40 er nefnt svo vegna þess að lögreglumenn byggðu það og bjuggu,“ segir hann.
Saga er á bak við nöfnin. Hallgrímur vísar m.a. til þess að Bráðræðisholt heiti svo vegna þess að býli þar hafi verið uppnefnt Bráðræði þar sem mönnum hafi þótt það vera byggt á undarlegum stað. „Ráðleysi er annað slíkt nafn rétt eins og Hallærisplanið,“ segir hann.